Bent er á það að í ár mælist Ísland með 72 stig af 100 mögulegum. Það er í samræmi við langtímaþróun landsins í vísitölunni en Ísland hefur misst sex stig á síðustu fimm árum og tíu stig síðastliðinn áratug.
„Ísland sker sig verulega úr meðal Norðurlanda. Danmörk mælist hæst með 90 stig eins og árið áður. Þar á eftir kemur Finnland með 87 stig, Noregur með 84 og Svíþjóð með 82. Ísland er í hópi 23 landa sem fá sögulega slæma einkunn í ár. Þar á meðal eru Holland, Svíþjóð og Bretland ásamt Íran, Rússlandi, Tajikistan og Venezuela. Alls hafa 28 lönd bætt mælingu sína á milli ára en 34 hafa fallið. 118 lönd standa í stað,“ segir í tilkynningunni.
Íslandsdeild Transparency International bendir á að árið 2023 höfðu tæplega 20 manns stöðu grunaðra vegna tilrauna til að múta á Íslandi.
„Þá hafa ítrekað komið upp mál sem veikt geta tiltrú almennings á góðri stjórnsýslu. Þar má nefna einkavæðingu Íslandsbanka og málefni Samherja í Namibíu. Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar vegna vinnu Auðlindarinnar okkar kemur fram að almenningur á Íslandi telur sjávarútveg og fiskveiðistjórnunarkerfið spillt. Raunar telur aðeins 1 af hverjum 6 svarenda heiðarleika einkenna íslenskan sjávarútveg og fiskveiðistjórnunarkerfið. Þá einkenndist árið 2023 af óreiðu meðal stjórnarflokkanna sem getur haft áhrif á tiltrú á getu stjórnvalda til að takast á við spillingu og standa fyrir góðri stjórnsýslu.“
Í tilkynningunni er bent sérstaklega á stöðu Namibíu í vísitölunni vegna málefna Samherja í landinu.
„Namibía mælist nú með 49 stig og stendur í stað frá árinu áður. Namibía hefur misst þrjú stig á síðustu fimm árum en bætt við sig einu stigi á síðastliðnum áratug. Íslandsdeild vekur athygli á því að Namibía hefur misst þrjú stig frá því að Samherjamálið hófst. Fall Íslands á sama tíma eru sex stig.“
Þá segir Íslandsdeild Transparency að þau ríki sem skora nokkuð hátt í vísitölunni hafi mörg staðnað eða misst stig.
„Í Evrópu hefur Transparency International álitið að skortur á öflugu viðbragði við spillingu, pólitísk spilling og gríðarleg ítök sérhagsmunahópa í stjórnmálum ýti undir aukið vantraust. Þá hefur sú stefna að veikja eftirlit aukið vantraust á stofnunum. Vestur-Evrópa er það svæði heimsins sem skorar hæst í vísitölunni en árið 2023 er í fyrsta skipti í næstum áratug sem meðalstigafjöldi svæðisins fellur; úr 66 í 65 stig.“