Kýrin Skjóða frá Hnjúki í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu hefur slegið Íslandsmet. Hún er nytjahæsta kýr í sögu landsins.
Bændablaðið greindi fyrst frá.
Á liðnu ári mjólkaði Skjóða samanlagt 14.762 lítrum. Jafndreift yfir allt árið eru það 40,44 lítrar á dag.
„Meðalkýrin hjá okkur er í 7.500 lítrum á mjaltaskeiðinu. Hún er hátt í helmingi meira en það,“ segir Maríanna Gestsdóttir, bóndi á Hnúki, í samtali við DV. Hún er eigandi Skjóðu ásamt Sigurði Rúnari Magnússyni.
Skjóða er borin árið 2018 og því á sjötta ári, stór og mikill gripur af góðum ættum. Hún hefur ekki fengið annað fóður en aðrir gripir á bænum.
Maríanna býst ekki við verri nytjum frá henni á þessu ári þó að óvíst hvort að hún slái annað met. Hún sé nefnilega á leiðinni í geldstöðu núna.
„Við búumst við sömu nytjum í ár. frestuðum aðeins burðum þannig að hún fer í aðeins lengra mjaltaskeið. Það hittir ekki eins vel á almanaksárið. En hún mun mjólka það sama á mjaltaskeiðinu,“ segir Maríanna.