Isavia ohf. sem meðal annars rekur Keflavíkurflugvöll greindi nýlega frá því að fyrirtækið hefði í hyggju að efna til forvals vegna væntanlegs útboðs á rekstri dótturfélags síns Fríhafnarinnar sem rekur verslanir á flugvellinum þar sem seldur er tollfrjáls varningur, meðal annars er áfengi, tóbak og sælgæti. Isavia og þar með Fríhöfnin er alfarið í eigu íslenska ríkisins. Taki einkaaðilar við rekstri Fríhafnarinnar eins og allt stefnir í er ekki hægt að útiloka að það muni fela í sér uppsagnir starfsfólks en það nýtur þó vissrar verndar samkvæmt lögum.
Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli á sér nokkurra áratuga langa sögu. Fríhöfnin var ríkisstofnun fram til ársins 2000 en varð þá þá hluti af hlutafélaginu Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Árið 2005 var stofnað sérstakt dótturfélag hlutafélagsins um rekstur Fríhafnarinnar, Fríhöfnin ehf., sem færðist undir Isavia þegar það tók við af Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. árið 2010.
Viðskiptablaðið greindi frá því fyrst fjölmiðla að Isavia ætlaði sér að ráðast í forval og í kjölfarið útboð á rekstri Fríhafnarinnar. Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. greindi Viðskiptablaðinu frá því að forathugun hefði leitt í ljós að Isavia myndi hafa fjárhagslegan ávinning af því að bjóða rekstur Fríhafnarinnar út. Hann tjáði Viðskiptablaðinu að mikill áhugi væri meðal erlendra aðila sem koma að rekstri slíkra verslana að koma að rekstri fríhafnar á Íslandi. Guðmundur reiknaði með að nýir aðilar tækju við rekstri Fríhafnarinnar eftir um tvö ár en að niðurstöður væntanlegs útboðs liggi væntanlega fyrir eftir 12 til 18 mánuði.
Í umfjöllun Viðskiptablaðsins er ekkert minnst á hvaða áhrif útboðið muni hafa á starfsfólk Fríhafnarinnar og störf þeirra. Víkurfréttir, sem flytja eingöngu fréttir frá Suðurnesjum, greindu frá umfjöllun Viðskiptablaðsins. Í umfjöllun sinni bentu Víkurfréttir á það að stór alþjóðleg fyrirtæki eru umsvifamikil í rekstri í flugstöðvum víða um heim og líklegt sé að þau séu í meirihluta þeirra sem sýnt hafi Fríhöfninni áhuga. Víkurfréttir segja það ekki ólíklegt að slíkir aðilar sjái sér hag í því að ná fram meiri hagkvæmni með færra starfsfólki og meiri sjálfsafgreiðslu. Það sé í takt við það sem sjá megi í flugstöðvum víða um heim.
Í umfjöllun Víkurfrétta kemur einnig fram að hjá Fríhöfninni starfi um 200 manns og meirihluti starfsmanna búi á Suðurnesjum.
DV leitaði svara hjá Isavia um hvað verður um starfsfólk Fríhafnarinnar þegar einkaaðilar taka við rekstri hennar. Fréttamaður DV spurði hvort hluti af þeim fjárhagslega ávinningi af útboðinu á rekstri Fríhafnarinnar, sem athugun Isavia leiddi í ljós, sé fyrirséð fækkun starfsfólks. Í skriflegu svari Isavia kemur fram að aðeins hafi verið kannað hvort slíkt útboð kæmi sér vel fyrir rekstur Keflavíkurflugvallar. Svar Isavia er eftirfarandi:
„Óflugtengd starfsemi snýst hins vegar að mestu um að veita gestum ýmsa þjónustu á flugvellinum. Þar má helst nefna rekstur veitingastaða, verslana, bílastæða og aðra þjónustu sem snýr að samgöngum til og frá flugvellinum. Isavia hefur farið þá leið að bjóða út aðstöðu til fyrirtækja sem geta veitt þessa þjónustu þegar það er metið svo að í því felist ávinningur fyrir flugvöllinn, hvort sem litið er til ferðaupplifunar gesta eða tekna. Á grundvelli niðurstöðu útboða hefur síðan verið gerður leigusamningur sem tryggir flugvellinum veltutengda leigu. Fríhafnarverslanirnar á Keflavíkurflugvelli eru reknar af dótturfélagi Isavia og eru því eini verslunarreksturinn á flugvellinum sem ekki hefur verið boðinn út.“
„Útboð á aðstöðu til reksturs verslana og veitingastaða á Keflavíkurflugvelli á Evrópska efnahagssvæðinu hefur skilað góðum árangri, bæði fyrir upplifun gesta og fyrir tekjur flugvallarins af veltutengdri leigu. Þessi reynsla auk niðurstöðu greiningar gefur Isavia tilefni til að ætla að útboð á rekstri fríhafnarverslunar á Evrópska efnahagssvæðinu muni stuðla að enn betri upplifun farþega, auknu vöruúrvali og aukinni veltu sem geti skilað meiri tekjum fyrir Keflavíkurflugvöll. Ákvörðun um að bjóða út rekstur fríhafnarverslunar byggir því eingöngu á því mati að það geti skilað ávinningi fyrir rekstur flugvallarins.“
Fréttamaður DV spurði einnig hvað verður um starfsfólk Fríhafnarinnar þegar einkaaðilar taka við rekstrinum. Hvort því verði öllu sagt upp eða hvort áætlanir sé uppi um það í væntanlegu útboði í kjölfar forvalsins að setja það sem skilyrði að öllu starfsfólkinu eða hluta þess verði boðið starf hjá þeim aðila sem tæki við rekstrinum. Ef þetta skilyrði yrði sett hvort starfsfólkinu yrði þá boðin störf á sömu launum og kjörum og það hefur nú hjá Fríhöfninni.
Svar Isavia við þessu er eftirfarandi:
„Leiði útboð til tilboða sem Isavia telur uppfylla væntingar verður gerður samningur við nýjan rekstraraðila. Samhliða því yrði starfsemi Fríhafnarinnar, dótturfélags Isavia, lögð niður. Þetta er frábært starfsfólk með sérhæfingu við störf í fríhafnarverslun á alþjóðaflugvelli og mun því verða eftirsóttir starfskraftar fyrir rekstraraðila á flugvellinum, hvort sem er Isavia, nýja rekstraraðila fríhafnarverslana eða aðra. Þess utan þá gerum við ráð fyrir að lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum myndu gilda í tilefni Fríhafnarinnar.“
Í þeim lögum sem vísað er til í svari Isavia kemur fram að réttindi og skyldur framseljanda fyrirtækis, sem í þessu tilfelli væri Isavia, samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi sé á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á færist yfir til framsalshafa, þ.e.a.s. þeim aðila sem tæki við rekstri Fríhafnarinnar. Í lögunum segir enn fremur að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp, hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.
Í lögunum segir einnig að framseljanda eða framsalshafa sé óheimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta að fyrirtæki eða hluta þess bæði fyrir og eftir aðilaskiptin nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækis. Vinnuveitandi beri ábyrgð á riftun á ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi hafi aðilaskipti leitt til verulegra breytinga á starfsskilyrðum, starfsmanni í óhag.
Af ákvæðum laganna má því ráða að það sé ekki alfarið útilokað að uppsagnir starfsfólks verði mögulegar þegar aðilaskipti eiga sér stað á rekstri Fríhafnarinnar. Það er einnig ljóst að kjör starfsfólksins ættu að vera óbreytt, þar til að sá kjarasamningur sem er þá í gildi rennur út, verður sagt upp eða að annar kjarasamningur tekur við.
Fréttamaður DV beindi einnig þeirri fyrirspurn til Isavia hvort til stæði að bjóða út fleiri hluta starfsemi sem heyrir undir fyrirtækið en eingöngu rekstur Fríhafnarinnar eins og t.d. rekstur flugverndar, sem snýr meðal annars að öryggisleit á farþegum, farþegaþjónustu og flugvallarþjónustu, sem snýr m.a. að rekstri og eftirliti með flugbrautum. Í svari Isavia kemur fram að starfsemi á flugvellinum sem tengist ekki flugi beint eins og verslunarrekstur snúist um að veita gestum ýmsa þjónustu á flugvellinum og þess vegna hafi verið ákveðið að bjóða slíka starfsemi út. Annað eigi við um starfsemi sem tengist flugi beint eins og t.d. flugvernd og flugvallarþjónustu:
„Það er alltaf verið að leita leiða til að gera Keflavíkurflugvöll betri og samkeppnishæfari, hvernig hægt er að bæta ferðaupplifun, auka hagræði í rekstri og auka tekjur til að styðja við þróun og uppbyggingu sem miðar að því að gera flugvöllinn betri.“
„Flugtengd starfsemi Isavia snýr að því að bjóða flugrekstraraðilum aðstöðu og þjónustu á Keflavíkurflugvelli sem gerir þeim kleift að nýta flugvöllinn sem áfangastað. Fyrir þetta greiða flugrekstraraðilar gjöld til flugvallarins samkvæmt gjaldskrá. Í þessari starfsemi er Isavia alltaf að leita að leiðum til þess að auka hagræði og skilvirkni, meðal annars með bættu skipulagi, þjálfun starfsfólks, nýrri tækni og almennri þróun flugvallarins. Það hefur hins vegar ekki komið til athuganar að bjóða þessa starfsemi út enda um kjarnastarfsemi flugvallar að ræða.“