fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Til skoðunar að bjóða út sorphirðu í Reykjavík

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 24. janúar 2024 18:30

Mynd Ernir Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gær var tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að bjóða út sorphirðu í Reykjavík vísað til borgarráðs. Tillagan kemur í kjölfar margra frétta í fjölmiðlum og frásagna íbúa borgarinnar um að sorphirða hafi gengið seint og illa síðan nýtt flokkunarkerfi var innleitt. Eins og kunnugt er sér borgin sjálf um sorphirðu en í flestum nágrannasveitarfélögunum er hún boðin út.

Í greinargerð með tillögu Sjálfstæðisflokksins segir einmitt að sorphirða í borginni hafi víða verið fleiri vikum á eftir áætlun og losun grenndargáma illa sinnt. Sorphirða sé boðin út í öllum nágrannasveitarfélögum og hafi innleiðing nýja kerfisins gengið töluvert betur á öllu höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Jafnframt hafi komið í ljós að gjaldskrár sorphirðu séu töluvert hagstæðari fyrir íbúa í nágrannasveitarfélögum heldur en í Reykjavík þar sem sorphirðugjöld séu hæst. Gjald fyrir til að mynda þrjár 240 lítra flokkunartunnur (pappírstunnu, plasttunnu og tvískipta tunnu fyrir blandað og lífrænt sorp) auk gjalds fyrir rekstur grenndar- og endurvinnslustöðva sé samtals 90.500 krónur í Reykjavík, 62.500 krónur í Kópavogi, 68.798 krónur í Hafnarfirði og 72.190 krónur í Garðabæ. Þess vegna sé lagt til  sorphirða verði boðin út í Reykjavík til að tryggja borgarbúum betri þjónustu og lægri þjónustugjöld.

Þjónustan sé víst góð

Borgarfulltrúar meirihlutaflokkanna, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Framsóknarflokksins og Pírata andmæltu því í sinni bókun að þjónusta við sorphirðu í Reykjavík væri ekki góð. Reykjavík komi afar vel út í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þegar komi að verði og gæðum þjónustu. Flokkarnir samþykktu að vísa tillögu sjálfstæðismanna til borgarráðs í ljósi þess að ávallt þurfi að hafa vakandi auga fyrir bættum rekstri og bættri þjónustu.

Flokkur fólksins samþykkti einnig að vísa tillögunni til borgarráðs og í bókun flokksins er tekið undir að vert sé að kanna útboð á sorphirðu ekki síst vegna hærri gjaldskrár í Reykjavík en Kópavogi sem býður út sorphirðu.

Borgarfulltrúar Vinstri grænna og Sósíalistaflokksins höfnuðu því hins vegar að vísa tillögu Sjálfstæðismanna til borgarráðs og lýsa sig mótfallin útboði á sorphirðu borgarinnar.

Í bókun borgarfulltrúa Sósíalista á fundinum segir meðal annars:

„Ef nokkur sparnaður fæst af slíkri útvistun er hann fenginn úr launaumslagi verkafólks, verri þjónustu, eða hvoru tveggja.“

Borgarfulltrúi Vinstri grænna var ekki mikið hrifnari af hugmyndunum. Í bókun flokksins segir meðal annars að einkavæðing sorphirðunnar sé ekki töfralausn sem bæti þjónustustig og lækki um leið gjöldin. Reykjavíkurborg eigi áfram að þjónusta heimili, stofnanir og fyrirtæki í borginni. Hins vegar megi hugsa sér að í náinni framtíð gæti höfuðborgarsvæðið sameinast um að færa alla sorphirðu til Sorpu bs.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“