Í samtali við DV segir Lára að slysið hafi orðið þegar hún fór í skemmtisiglingu með fyrirtæki sem heitir Aqua Sports. Um var að ræða fjögurra tíma siglingu þann 10. júní síðastliðinn sem byrjaði vel; veðrið var gott eins og við er að búast á Kanaríeyjum og innifalið í verði var matur og bjór.
Lára vakti fyrst athygli á málinu í Facebook-hópnum Kanaríflakkarar og þar rakti hún atburðarásina.
Eftir að gestir um borð voru búnir að borða var siglt í höfn og þeim farþegum sem keypt höfðu styttri tíma skilað í land. Lára og önnur íslensk kona héldu áfram og var meðal annars boðið upp á Jet-ski og ferð á svokölluðum bananabáti. Lára segir að þær vinkonur hafi hugsað sig vel um enda báðar komnar á sjötugsaldur, en ákveðið að skella sér á bananabátinn. Það reyndist afdrifarík ákvörðun, að minnsta kosti hjá Láru.
Farþegar um borð í bátnum þurftu að hoppa niður í sjóinn úr talsverðri hæð til að komast á bananabátinn. Lára segist hafa hikað og starfsmaður á bátnum, sem sá meðal annars um að halda bananabátnum að snekkjunni, tekið eftir því og ýtt við henni með þeim afleiðingum að hún féll.
„Bilið á milli snekkjunnar og bananabátsins var of lítið til að ég félli beint í sjóinn og ég fæ gríðarlegt högg á hægri fótlegg frá mjóbaki og niður,“ segir Lára og segir að fólk sem varð vitni að slysinu hafi baðað út höndum í skelfingu en á sama tíma hafi maðurinn látið sig hverfa.
„Þá kemur í ljós að talstöð var ekki á milli snekkjunnar og mannsins sem var á sjósleðanum.“ Lára bætir við að maðurinn á sjósleðanum hafi bakkað til að koma bananabátnum að snekkjunni en það varð til þess að Lára fékk ítrekuð högg þar sem hann bakkaði aftur og aftur á hana.
Lára segist hafa náð að halda sér á floti, sárkvalin, og segist hún í dag þakklát fyrir að hafa lagt stund á köfunarþjálfun án búnaðar og skriðsund.
„Ég tók ákvörðun mjög vönkuð og slösuð að kafa djúpt og synda skriðsund aftur fyrir snekkjuna,“ segir Lára sem tókst að synda að stiganum upp í snekkjuna, alveg búin á því.
„Ég komst ekki sjálf upp stigann, það voru engir starfsmenn til staðar svo tveir karlmenn reyndu að toga mig upp en misstu mig,“ segir hún. Annar maðurinn virðist hafa fyllst einhverjum ofurkrafti, að sögn Láru, og tekist að draga hana um borð.
Lára var í miklu áfalli og sárkvalin á þessum tímapunkti en fattaði ekki að hringja á eftir sjúkrabíl. Þess í stað tók hún leigubíl og vildi í fyrstu bara fara heim en ákvað síðar að láta bílstjórann keyra sig á sjúkrahús.
Við skoðun á sjúkrahúsinu kom í ljós að áverkar Láru voru alvarlegir og var hún til dæmis með innvortis meiðsl. Hún missti mikið blóð, lærleggurinn var sprunginn á nokkrum stöðum og lærvöðvi trosnaður frá nára og niður. Hún fór svo til læknis á Íslandi þann 21. júní síðastliðinn og þá komu enn meiri áverkar fram; meðal annars hafði setbein skaddast að mjaðmarlið og rófubeini.
Lára segir að næstu mánuðir á eftir hafi verið erfiðir og hún verið verkjuð í þrjá mánuði eftir slysið.
„Ég gat ekki setið, húð sprakk á sköflung vegna áverka og bjúgs. Ég fór annan hvern dag í sárameðferð sem gekk hægt og í sterkar lyfjagjafir.“ Lára segist vera vel tryggð hérna heima en bendir á að fyrirtækið úti hafi ekki svarað tölvupóstum frá henni, sjúkrahúsinu eða Fulltingi, lögmannsstofu með langa reynslu af innheimtu slysa- og skaðabóta.
Í samtali við DV brýnir Lára fólk sem verður fyrir slysi erlendis að kalla til sjúkrabíl því þá komi lögregla einnig á vettvang og taki skýrslu. „Ef skýrsla hefði verið tekin væru málaferli mun auðveldara því auðvitað er fyrirtækið tryggt,“ segir hún. Þá hvetur hún ferðaskrifstofur og flugfélög að upplýsa sína farþega um hvað sé best að gera þegar slys verða erlendis.
Aðspurð hvernig hún hefur það í dag, sjö mánuðum eftir slysið, segir Lára að líðan hennar sé betri en hún eigi þó langt í land.
„Það er talið að það geti tekið mig þrjú ár, eða jafnvel lengur, að ná mér því setbein brákaðist út að mjaðmarlið og rófubeini“ segir hún.
DV leitaði viðbragða hjá forsvarsmönnum Aqua Sports vegna málsins en þau voru ekki komin fyrir birtingu greinarinnar.