fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Danska konungsfjölskyldan gagnrýnd fyrir að þiggja dýrar gjafir

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. janúar 2024 22:30

Myndin er tekin daginn eftir að Friðrik tók við dönsku krúnunni. Mynd: Sean Gallup/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það sætir aukinni gagnrýni í Danmörku að engar reglur gildi um gjafir til konungsfjölskyldunnar. Það hefur gert henni kleift að þiggja mjög dýrar gjafir ekki síst frá kaupsýslumönnum og fyrirtækjum án þess að gefa nokkuð upp um það.

Þetta kemur fram í umfjöllun danska ríkisútvarpsins.

Sérhönnuð föt, minkapelsar og hraðbátur eru meðal þeirra gjafa sem meðlimir konungsfjölskyldunnar hafa þegið.

Ólíkt flestum öðrum konungdæmum í Evrópu þá hafa engar reglur verið í gildi í Danmörku um að konungsfjölskyldan megi ekki þiggja dýrar gjafir frá aðilum úr atvinnulífinu eða að gefa verði upp gjafir sem berast fjölskyldunni.

Jesper Olsen, formaður Danmerkurdeildar samtakanna Transparency International, sem berjast gegn hvers kyns spillingu, gagnrýnir þetta harðlega.

Hann segir konungsfjölskylduna hafa völd og það sé algengt víða að fólk í opinberum embættum megi ekki þiggja gjafir. Það sé áhyggjuefni að fyrirtæki og einstaklingar geti gefið konungsfjölskyldunni dýrar gjafir og fjölskyldan verði að láta af þessu því vafi leiki á hvort gefendurnir séu að kaupa sér áhrif.

Aðrar reglur gilda í Noregi en árið 2015 voru settar reglur um gjafir til konungsfjölskyldunnar ekki síst vegna dýrra gjafa frá aðilum í atvinnulífinu. Norska konungsfjölskyldan má ekki þiggja gjafir frá fyrirtækjum og listi yfir gjafir, sem eru ekki frá fjölskyldu og vinum og eru meira virði en 1.000 norskar krónur (rúmlega 13.000 íslenskar krónur) er birtur á vef konungshallarinnar.

Listi yfir gjafir til konungsfjölskyldunnar er einnig birtur opinberlega á Spáni og í Bretlandi.

Þótt danska konungsfjölskyldan þurfi ekki að greina opinberlega frá gjöfum sem henni berast hafa þó birst fréttir um sumar þeirra í fjölmiðlum. Margrét drottning hefur til að mynda fengið minkapels og jakka úr minkaskinni að gjöf frá dönsku fyrirtæki og önnur dýr föt frá fleiri aðilum. Tengdadóttir hennar María drottning hefur fengið tískuföt og dýrar handtöskur.

María og eiginmaður hennar Friðrik konungur fengu fimm bíla að gjöf árið 2004 þegar þau giftu sig en 2018 gaf konungsfjölkyldan það út að hún myndi ekki þiggja fleiri bíla.

Var með dýrt armband þegar hann tók við

Umræðan um dýrar gjafir fór á flug þegar í ljós kom að Friðrik var með armband um úlnliðinn þegar hann tók við krúnunni 14. janúar síðastliðinn. Þetta armband er frá skartgripafyrirtækinu Shamballa og staðfesti forstjóri fyrirtækisins það en neitaði að gefa upp hvort konungurinn hefði keypt armbandið eða fengið það gefins frá fyrirtækinu.

Jesper Olsen segir armbandið gott dæmi um að gagnsæi verði að ríkja um gjafir til konungsfjölskyldunnar. Ef María hefði gefið eiginmanninum armbandið væri það ekkert mál en öðru gegni ef fyrirtækið hafi gefið Friðriki armbandið til að koma vöru sinni á framfæri.

Konungsfjölskyldan hefur ekki gefið upp hvaðan konunginum barst armbandið.

Fjölmiðlafulltrúar konungshallarinnar hafa hins vegar greint frá því að nú þegar Friðrik hefur tekið við krúnunni verði viðmið um gjafir til fjölkskyldunnar endurskoðuð.

Það hefur einnig komið fram hjá danska ríkisútvarpinu að nokkrir flokkkar á danska þinginu vilji að nú verði settar reglur um gjafir til konungsfjölskyldunnar. Gagnsæi eigi að ríkja og takmarka eigi eða jafnvel banna gjafir frá fyrirtækjum og kaupsýslumönnum.

Aðrir flokkar á þinginu eru þó tregir til að setja konungsfjölskyldunni stólinn fyrir dyrnar. Talsmaður Jafnaðarmannaflokksins, flokks Mette Frederiksen forsætisráðherra, segir að konungsfjölskyldan ætti sjálf að ráða því hvaða reglur eru settar um gjafir til hennar. Hann segir það ekki sjálfgefið að sömu reglur eigi að gilda um hana og gjafir til danskra ráðherra sem þurfi að gefa þær allar upp. Í Danmörku sé þingbundin konungsstjórn og handhafi krúnunnar hafi lítil formleg völd og komi ekki að pólitískum ákvörðunum. Það sé þó líklega skynsamlegt fyrir fjölskylduna að koma betur til móts við nútímann í þessum efnum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“