Helgin var tiltölulega tíðindalítil á svæðinu en það sem einkennir stöðuna nú er að landris við Svartsengi heldur áfram. Er það svipuð staða og var fyrir gosið sem hófst 14. janúar síðastliðinn. Þorvaldur segir erfitt að lesa í framhaldið, til dæmis um það hvenær byrjar að gjósa og hvar.
„Einfaldasta túlkunin á þessari atburðarás er sú að núna erum við á þessum tíma þar sem kvikan er að safnast í þetta hólf undir Svartsengi,“ segir Þorvaldur og bætir við að nú sé að bíða og sjá hvort það dragi til tíðinda þegar hólfið er búið að fyllast.
„Ég reikna með að það verði svipuð endurtekning á því eins og við höfum verið að sjá,“ segir hann. Hann segir erfitt að segja til um hvar gos gæti komið upp.
„Það gæti farið þarna aðeins norður eftir eða komið upp á svipuðum slóðum og það gerði 18. desember eða 14. janúar. Þetta er svona langlíklegasta sviðsmyndin fyrir framtíðina en svo er ekkert hægt að útiloka að þetta stökkvi í Eldvörpin eða eitthvað svoleiðis.“
Þorvaldur segist ekki hafa trú á því að gos komi upp í miðri Grindavík eins og sumir hafa óttast.
„Að mínu mati er engin kvika undir Grindavík. Ef að kvika væri á grunnu dýpi undir Grindavík þá myndum við sjá gas og hitastreymi koma upp um sprungurnar,“ segir Þorvaldur og bendir á að kvikan sé rúmlega þúsund gráðu heit. Ekki virðist nein gufa vera að koma upp úr þeim eins og kannski við mætti búast ef kvika væri á litlu dýpi.
„Þannig að mér finnst mjög ólíklegt að það sé einhver kvika þarna á grunnu dýpi eins og sumir hafa verið að halda fram.“
Þorvaldur segir að ýmsir möguleikar séu í stöðunni og tíminn verði að leiða í ljós hvað gerist.
„Maður vonast bara til þess að þetta hætti eða færi sig til þannig að þetta fari að róast fyrir Grindvíkinga. Það er vont að vera í þessari óvissu,“ segir hann.