Sjö íslenskir ríkisborgarar hafa verið handteknir hérlendis frá árinu 2013 og verið afhentir öðru ríki á grundvelli handtökuskipunar og allir til meðferðar sakamáls í ríkinu sem óskaði eftir afhendingu hins eftirlýsta. Allir voru þeir framseldir til annarra Norðurlanda.
Kemur þetta fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um handtöku og afhendingu íslenskra ríkisborgara.
Spurningin sem lögð var fram 29. nóvember síðastliðinn var svarað 21. desember og lögð fram á Alþingi í dag. Hlé var á þingfundum 16. desember til dagsins í dag:
„Hversu oft hafa íslenskir ríkisborgarar verið handteknir frá byrjun árs 2016 og afhentir öðru ríki á grundvelli handtökuskipunar vegna fyrirhugaðra réttarhalda? Í hversu mörgum þessara tilfella lá dagsetning réttarhalda ekki fyrir? Svar óskast sundurliðað eftir ríkjum, þeim afbrotum sem viðkomandi aðilar voru grunaðir um og eftir því hvort dagsetning réttarhalda lá fyrir eða ekki.“
Í svari dómsmálaráðherra kemur einnig fram að málsmeðferðarreglur ríkisins sem hefur fengið viðkomandi afhentan eiga þá við um framhaldið. Með öðrum orðum eiga þær reglur sem gilda um meðferð sakamála við um málið í móttökuríkinu og er aðkomu íslenskra stjórnvalda lokið nema sett hafi verið ákveðin skilyrði fyrir afhendingunni. Íslensk stjórnvöld gætu til dæmis þurft að bregðast við ef skilyrði var sett fyrir því að viðkomandi yrði sendur aftur til Íslands til afplánunar en þá þyrfti að bíða eftir niðurstöðu dóms og íslensk stjórnvöld að taka við málinu þegar sú niðurstaða lægi
fyrir.
Tegund Brots | Lyktir | Skilyrði |
Fíkniefnalagabrot | Afhentur dönskum yfirvöldum í október 2013 | Bann við framsali annað |
Fíkniefnalagabrot | Afhentur dönskum yfirvöldum í október 2013 | Bann við framsali annað |
Fíkniefnalagabrot | Afhentur dönskum yfirvöldum í október 2013 | Bann við framsali annað |
Sifjaskaparbrot | Afhentur dönskum yfirvöldum í febrúar 2014 | Bann við framsali annað |
Rán/líkamsárás | Afhentur finnskum yfirvöldum í maí 2016 | Bann við framsali annað |
Líkamsárás | Afhentur norskum yfirvöldum í nóvember 2017 | Bann við framsali annað |
Sifjaskaparbrot | Afhentur norskum yfirvöldum í desember 2023 | Bann við framsali annað
Send aftur til Íslands til að afplána. |
Nýjasta málið er framsal Eddu Bjarkar Arnardóttur sem ítrekað hefur verið fjallað um í fjölmiðlum, en hún er komin heim til Íslands og mun afplána dóm sinn hérlendis.
Sjá einnig: Edda Björk kemur til Íslands á föstudag
Fyrirspurn um hvort ríkissaksóknari hafi frestað afhendingu íslenskra ríkisborgara er svarað neitandi, en upplýst að í einu tilviki hafi afhendingu hefur verið hafnað.
Í svari dómsmálaráðherra er nánar farið yfir hvaða lög gilda um framsal. Meginreglan er sú að á íslenska ríkinu hvílir skylda til að handtaka og afhenda menn, ef lagaskilyrði eru uppfyllt, nema fyrir hendi séu synjunarástæður þær sem tilgreindar eru í lögunum og gildir það sama um íslenska og erlenda ríkisborgara að þessu leyti, sbr. þó sérskilyrði í 27. gr. laganna.
Þann 6. desember lagði Diljá einnig fram fyrirspurn um handtöku og afhendingu einstaklinga til Íslands, svar barst 27. desember og lagt fram á þingi í dag:
„ Hversu margir einstaklingar hafa verið handteknir og afhentir til Íslands frá gildistöku laga nr. 51/2016? Svar óskast sundurliðað eftir því frá hvaða ríkjum þeir voru afhentir, ástæðu afhendingar og þeim afbrotum sem lágu henni til grundvallar?“
Sex einstaklingar hafa verið handteknir og afhentir til Íslands, ýmist á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar (EAW) eða norrænnar handtökuskipunar (NAW), og sundurliðast það svo:
Frá hvaða ríki | Ástæða afhendingar | Afbrot | EAW/NAW |
Noregi | Meðferð máls | Kynferðisbrot o.fl. | NAW |
Svíþjóð | Meðferð máls | Kynferðisbrot | NAW |
Finnlandi | Meðferð máls | Kynferðisbrot o.fl. | NAW |
Lettlandi | Meðferð máls | Fíkniefnalagabrot | EAW |
Króatíu | Meðferð máls | Brot í opinberu starfi | EAW |
Spáni | Meðferð máls | Fíkniefnalagabrot | EAW |