fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Foreldrar Bergs Snæs segja fjölmiðlum Sýnar að skammast sín fyrir að gefa manninum sem beitti son þeirra hrottalegu ofbeldi rödd

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. janúar 2024 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við getum ekki látið óátalið að Sigurði sé veittur vettvangur til að áreita son okkar yfir gröf og dauða með aðstoð óvandaðs dansks þáttagerðafólks og með stuðningi Stöðvar 2 – sem kaus að kaupa þessa þætti, sýna í dagskrá sinni, og nýta visir.is til að koma þáttunum á framfæri,“ segja foreldrar Bergs Snæs Sigurþórusonar, Sigurþóra Bergsdóttir og Rúnar Unnþórsson, í pistli á Vísi.

Heimildaþættirnir A Dangerous Boy, eða Hættulegur strákur, voru frumsýndir á Stöð 2 14. janúar síðastliðinn. Þættirnir, sem eru fjórir talsins, eru framleiddir í Danmörku og fjalla um líf Sigurðar Þórðarsonar,  sem er betur þekktur sem Siggi hakkari, meðal annars fjársvik hans og kynferðisbrot gagnvart ungum drengjum.

Bergur Snær var einn af þeim sem Sigurður beitti kynferðislegu ofbeldi. Sigurður var kærður fyrir ofbeldið gegn Bergi en málið á hendur honum var fellt niður. Í kjölfarið svipti Bergur sig lífi.

Sjá einnig: Bergur Snær tók eigið líf eftir að saksóknari felldi málið niður:„Seinna fann faðir Bergs messenger skilaboð á tölvu hans frá þessum brotamanni“

Sigurþóra opnaði síðar sérstakt setur í minningu sonar síns sem ætlað er ungu fólki.  Setrið er kennt við Berg og hetir Bergiðheadspace. Það er þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk í vanda, á aldrinum 12-25 ára, eins og segir á Facebook-síðu þess.

Sjá einnig: Sigurþóra komin með húsnæði fyrir Bergið á dánardegi sonar síns – „Táknrænt að nota dagsetningu á versta degi lífs míns“

Sigurþóra og Rúnar segja að þau hafi fyrir tveimur árum verið í samskiptum við dönsku þáttagerðarmennina:

„Í þeim tókum við skýrt fram að við vildum ekki vera tengd gerð þessara þátta og að við vorum þeirrar skoðunar að það ætti alls ekki að gera þessa þætti, Ástæðan er að við vitum að Sigurður er hræðilegur maður og öll umfjöllun um hann mun aðeins fæða skrímslið sem hann er.“

Þau segja að Sigurður hafi beitt Berg Snæ hrottalegu ofbeldi í þrjú ár þegar hann var á aldrinum 14-17 ára. Sigurður hafi haldið áfram að áreita Berg Snæ og reynt að halda sambandi við hann allt þar til Bergur Snær svipti sig lífi þegar hann var 19 ára.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu hafi Sigurður neitað að kannast við Berg Snæ. Þrátt fyrir að lýsingar Bergs Snæs á ofbeldinu hafi verið í samræmi við lýsingar annarra fórnarlamba Sigurðar hafi málið er sneri að ofbeldi hans gegn Bergi Snæ verið fellt niður:

„Þrátt fyrir að hægt væri að afsanna þessi orð Sigurðar.“

Sigurþóra og Rúnar segja að svo virðist sem versti ótti þeirra um efnistök þáttanna hafi ræst og Sigurður fái þar vettvang til að „bulla“ athugasemdalaust.

Þau segja að viku fyrir frumsýningu hafi þau fengið tölvupóst frá dönsku þáttagerðarmönnunum þar sem fullyrt hafi verið að óskir þeirra um að ekki yrðu birtar myndir af Bergi Snæ í þáttunum hafi verið virtar. Þeim hafi því verulega brugðið þegar í ljós hafi komið að ekki hafi verið staðið við það:

„Þáttagerðarfólkið sleppti að segja okkur að það er myndskeið í þáttunum þar sem Sigurður fer að leiði sonar okkar og nafnið hans á legsteininum sýnt í nærmynd. Það er eitthvað sem, í okkar villtustu draumum, okkur hefði ekki dottið í hug. Að fara með mann sem vitað var – út frá okkar samskiptum – að við fyrirlítum og viljum ekkert tengjast á heilagan stað sem er grafreitur sonar okkar. Þetta er svo ótrúlega ófyrirleitið að við bara getum ekki náð utan um það. Hver gerir svona!“

Eigi að vita betur og hafi ýft upp sárin

Sigurþóra og Rúnar fullyrða að danska þáttagerðarfólkið hafi logið því að þættirnir væru gerðir með þeirra samþykki. Vinnubrögð Dananna geti í besta falli talist vera ófagleg en í versta falli siðlaus.

Fjölmiðlar Sýnar eigi hins vegar að vita betur og eigi að þekkja sögu Sigurðar:

„Það að Stöð 2 hafi keypt þessa þætti og sýnt ber vott um dómgreindarleysi sem jaðrar við siðleysi. Síðan er höfuðið bitið af skömminni með óvönduðum fréttaflutningi um þættina á visir.is. Allt til að græða pening.“

„Skömm þeirra sem tóku þátt í þessu er mikil.“

Sigurþóra og Rúnar segja að þau og aðrir aðstandendur Bergs hafi verið lengi að læra að lifa með þessum harmleik. Gerð og sýning þáttanna og umfjöllun um þá á Vísi hafi aftur á móti ýft upp tilfinningaleg sár þeirra. Þau hvetja fólk til að mótmæla því að Stöð 2 sýni þættina og vilja helst að þeir verði teknir af dagskrá.

Að lokum senda þau eftirlifandi fórnarlömbum Sigurðar kæra kveðju:

„Vert er að nefna að Sigurður á ótal fórnalömb sem þjást nú vegna þessarar umfjöllunar og viljum við senda þeim kveðju og faðm. Við bjóðum þeim öllum að hafa samband við okkur sem vilja, við viljum veita þeim allan þann styrk og aðstoð sem við getum.“

Greinina í heild sinni er hægt að lesa hér.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Í gær

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Í gær

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur