fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Dómskerfið blessaði eignarnám Vegagerðarinnar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. janúar 2024 11:30

Mynd af vef Vegagerðarinnar. Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur birti fyrir helgi ákvarðanir sínar í sex málum sem vörðuðu öll eignarnám Vegagerðarinnar á hluta af jörðum í Hornafirði vegna gerðar hringvegar um fjörðinn. Alls fóru 12 landeigendur í mál við Vegagerðina en þar af voru 2 dánarbú. Um var að ræða hluta af samtals 8 jörðum í Hornafirði. Héraðsdómur og Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að eignarnámið hefði verið leyfilegt. Landeigendur töldu málin varða stjórnarskrárbundin eignarrétt þeirra en Hæstiréttur hafnaði því með ákvörðunum sínum að taka mál landeigendanna fyrir meðal annars á þeim grundvelli að málin vörðuðu ekki sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra.

Ákvarðanirnar sex eru nánast samhljóða. Einn munur var þó á einu málanna og hinum fimm. Málin fimm vörðuðu eignarnám á landi úr jörðunum sem nota skyldi í hringveginn en í sjötta málinu var um að ræða eignarnám á hlutdeild jarðarinnar í landi undir hringveginn og námu og tengiveg ásamt hlutdeild jarðarinnar í efni í burðarlag úr námu og hlutdeild í efni til fyllingar úr annarri námu.

Ein helsta röksemd lögmanns landeigandanna var sú að önnur leið hefði verið fær við vegalagninguna sem hefði skert eignarrétt þeirra minna en sú leið sem Vegagerðin valdi.

Heimilt samkvæmt lögum

Landsréttur hafði í málunum öllum staðfest þá dóma Héraðsdóms að Vegagerðinni hefði verið heimilt að standa fyrir eignarnáminu. Í ákvörðunum Hæstaréttar kemur fram að Landsréttur vísaði til þess að Vegargerðin hefði heimild samkvæmt vegalögum til að taka land úr eigu landeiganda sem þurfi til þjóðvegagerðar og hvers kyns vegahalds enda komi fullar bætur fyrir. Rétturinn tók fram að ákvörðun Vegagerðarinnar væri stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Meðalhófsregla þeirra laga hefði sérstaka þýðingu við ákvörðun um eignarnám í ljósi þess að eignarrétturinn væri friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni og hún því aðeins möguleg ef almannahagsmunir krefðust þess.

Landsréttur ályktaði að með vali á þeirri leið sem var ákveðið að leggja veginn á hefði eignarréttindum landeigenda verið raskað meira en með vali á þeirri leið sem landeigendur vildu að vegurinn yrði lagður á. Sá munur var sagður ekki óverulegur og Landsréttur taldi því í ljósi stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að leggja yrði til grundvallar að Vegagerðinni bæri að sýna fram á að gildar ástæður, sem réttlættu meiri skerðingu stjórnarskrárvarinna eignarréttinda, hafi legið til grundvallar leiðarvalinu.

Landsréttur féllst á það með Vegagerðinni að gildar ástæður hefðu legið til grundvallar ákvörðun um eignarnámið sem réttlættu þann mun á umfangi eignaskerðingar sem hlytist af því að velja þá leið sem Vegagerðin valdi fremur en þá leið sem landeigendur töldu að velja ætti. Landsréttur féllst ekki á að með eignarnámsákvörðun Vegagerðarinnar hefði verið brotið gegn meðalhófsreglu við mat á almannahagsmunum samkvæmt stjórnarskránni. Öðrum málsástæðum fyrir ógildingu ákvörðunar Vegagerðinnar var einnig hafnað.

Varði ekki mikilvæga hagsmuni

Lögmaður landeigendanna byggði í beiðni sinni um leyfi til að áfrýja málunum til Hæstaréttar á því að málin hefðu verulegt almennt gildi og fordæmisgildi um túlkun stjórnarskrárinnar með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þá hafi málin þýðingu fyrir mat á aðstæðum þar sem tekist sé á um tvo framkvæmdakosti sem báðir skerði eignarréttindi en sá kostur sem skerði þau meira verði fyrir valinu.

Einnig var byggt á því að dómar Landsréttar séu rangir. Fyrir hafi legið að munur á leiðinni sem Vegagerðin fór og þeirri sem landeigendur vildu fara hafi verið mjög takmarkaður en munur á eignaskerðingu umtalsverður. Óheimilt hafi verið að velja leiðina sem Vegagerðin valdi þar sem hin leiðin hafi uppfyllt tilgang og markmið framkvæmdarinnar. Loks var beiðnin um áfrýjunarleyfi byggð á því að úrslit málanna varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni landeigendanna enda varði málin stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra.

Hæstiréttur hafnaði því hins vegar að taka málin fyrir. Er það niðurstaða réttarins að þau hafi ekki verulegt almennt gildi og að þau varði ekki sérstaklega mikilvæga hagsmuni landeigendanna í skilningi laga. Hæstiréttur tók heldur ekki undir að dómar Landsréttar séu bersýnilega rangir.

Umræddir landeigendur komast því ekki lengra með mál sín í dómskerfinu og eignarnám Vegagerðarinnar stendur óhaggað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar