fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Duranona sendir fallega kveðju til íslensku þjóðarinnar – Þykir mjög vænt um Ísland

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 18. janúar 2024 12:00

Róbert Julian Duranona er búsettur á Kúbu í dag.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Róbert Julian Duranona er Íslendingum að góðu kunnur enda einn allra besti handboltamaðurinn af erlendum uppruna sem spilað hefur hér á landi. Raunar var Duranona svo góður að hann var um tíma einn besti handboltamaður í heiminum.

Duranona, sem stundum var kallaður „Dúndranúna“ vegna þess hversu skotfastur hann var, spilaði fjölda leikja með íslenska landsliðinu eftir að hann fékk ríkisborgararétt um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar.

DV lék forvitni á að vita hvað þessi stóri og stæðilegi fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta er að gera þessa dagana og hvort hann fylgist með „Strákunum okkar“ sem etja nú kappi við mörg af bestu landsliðum heims á Evrópumótinu sem nú fer fram í Þýskalandi. Ísland spilar í kvöld fyrsta leik sinn í milliriðli og er andstæðingurinn Þýskaland.

Horfir ekki lengur á handbolta

„Ég bý á Kúbu núna og ég horfi ekki lengur á handbolta. Ég er að sinna öðrum erindum,“ segir landsliðsmaðurinn fyrrverandi sem varð 58 ára í desember síðastliðnum.

Hann rekur lítið gistiheimili í höfuðborg Kúbu, Havana, og sinnir því af alúð. Honum þykir augljóslega vænt um Ísland.

„Það er gaman að heyra frá Íslandi, landinu sem ég elska mjög mikið. Ég á frábærar minningar frá þessu fallega landi og frábæra fólki sem þar býr.

Duranona rekur lítið gistiheimili í góða veðrinu á Kúbu.

Var einn sá besti í heimi

Duranona kom til Íslands árið 1995 og samdi við KA á Akureyri. Óhætt er að segja að félagsskipti hans hafi komið á óvart enda var Duranona á þeim orðinn býsna þekktur í alþjóðlegum handbolta. Hann keppti fyrir hönd Kúbu á HM í Sviss árið 1986 og varð næstmarkahæsti leikmaður mótsins með 50 mörk. Kristján Arason var markahæstur okkar Íslendinga með 41 mark.

Og á HM 1990 í Tékkóslóvakíu varð Duranona markahæsti leikmaður mótsins með 55 mörk. Á því móti var Ísland einmitt með Kúbu í riðli og vann Ísland 27-23. Duranona reyndist okkar mönnum samt erfiður því hann skoraði sjö mörk í leiknum.

Vildi ekki skrifa undir samning á Kúbu

Í viðtali við DV sumarið 1995 lýsti Duranona því hvernig það kom til að hann kæmi til Íslands.

Eftir að hafa verið á keppnisferðalagi með kúbverska landsliðinu í Argentínu árið 1994 ákvað hann að halda ekki heim til Kúbu með liðinu. „Yfirvöld á Kúbu vildu að ég skrifaði undir samning sem skyldaði mig til að leika handbolta á Kúbu og hvergi annars staðar næstu 10 árin og ég var ekki tilbúinn að skrifa undir það.“

Duranona hér með Guðmundi Guðmundssyni á HM í Tékkóslóvakíu árið 1990.

Í viðtalinu kom fram að Duranona hefði kynnst blaðamanninum Andrési Péturssyni á HM í Tékkóslóvakíu árið 1990 og þeir haldið góðu sambandi. Eftir að Duranona varð landflótta í Argentínu hafi þeir skrifast á og niðurstaðan verið sú að hann myndi heimsækja Andrés til Íslands.

Á þeim tíma hafði Duranona metnað til að ná lengra í handboltanum og komast til Evrópu að spila enda orðinn 28 ára. Úr varð að hann samdi við KA á Akureyri og var ekki lengi að láta að sér kveða. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu árið 1997 en hélt eftir það til Þýskalands þar sem hann lék með liðum eins og Eisenach, TuS N-Lübbecke og Wetzlar. Hann hætti í handbolta árið 2006 eftir býsna farsælan og athyglisverðan feril.

Samsett mynd frá gistiheimili kappans.

Þykir mjög vænt um Ísland

Í samtali við DV segir Duranona að hann hafi það ágætt á Kúbu en hann hafi engin afskipti haft af handbolta síðan hann flutti þangað aftur. Spurður hvort hann hafi til dæmis komið að þjálfun benti hann á að það væri ekki auðvelt fyrir mann eins og hann að starfa við íþróttina.

„Eins og þú veist þá varð ég íslenskur ríkisborgari og það er ekki vel séð að Kúbverjar spili fyrir aðrar þjóðir. Ég hef ekki haft nein samskipti við handboltasambandið hér,“ segir hann og einbeitir sér því að rekstri gistiheimilisins sem ber nafn hans.

Þá segir Duranona að hann eigi þrettán ára gamlan son sem heitir Jordan og er búsettur í Þýskalandi. Hann er stór og stæðilegur eins og faðir sinn og spilar körfubolta við góðan orðstír.

Duranona vildi koma kærri kveðju á framfæri til Íslendinga og strákanna í landsliðinu sem nú keppa í Þýskalandi og eiga erfiðan leik fyrir höndum í kvöld. „Mig langar að senda kossa og knús til íslensku þjóðarinnar. Hún gaf mér mjög, mjög mikla ást og hlýju.“

Duranona-feðgarnir, Róbert Julian og Jordan.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin

Svona ætlar Inga Sæland að fjármagna kosningaloforðin
Fréttir
Í gær

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður
Fréttir
Í gær

Kristrún liggur undir feldi vegna dólgsskrifa Þórðar Snæs

Kristrún liggur undir feldi vegna dólgsskrifa Þórðar Snæs
Fréttir
Í gær

Hrollvekjandi framtíðarsýn: Hitastig myndi falla um 7-9 gráður og Ísland yrði óbyggilegt

Hrollvekjandi framtíðarsýn: Hitastig myndi falla um 7-9 gráður og Ísland yrði óbyggilegt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“