Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir brot gegn kynferðislegri friðhelgi. Er maðurinn sakaður um að taka ljósmyndir af öðrum manni í sturtu.
RÚV greinir frá þessu.
Atvikið átti sér stað í júlí árið 2022 á Ylströndinni í Nauthólsvík. Í ákærunni segir að hinn ákærði hafi farið í sturtuklefann í búningsaðstöðunni og tekið tvær ljósmyndir af öðrum manni í leyfisleysi.
Krafist er að maðurinn verði dæmdur til refsingar sem og að farsíminn sem ljósmyndirnar voru teknar á verði gerður upptækur. Brotaþoli í málinu hefur gert kröfu um miskabætur upp á eina milljón króna.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan febrúar.