Í dag var birtur dómur sem féll 4. janúar síðastliðinn í Héraðsdómi Reykjaness. Maður var sýknaður af ákæru um að hafa beitt sambýliskonu sína og son þeirra líkamlegu og andlegu ofbeldi sem og hótunum. Lýstu bæði konan, drengurinn og eldri sonur hennar, stjúpsonur mannsins, að þau óttuðust manninn. Konan, stjúpsonurinn og drengurinn, sem af lýsingum í dómnum að dæma var á leikskólaaldri þegar meint brot áttu að hafa gerst, drógu framburði sína um að maðurinn hefði beitt þau ofbeldi hins vegar til baka og var hann í kjölfarið sýknaður.
Maðurinn var sakaður um ýmis ofbeldisverk í garð konu sinnar og sonar þeirra á tímabilinu september 2020 til febrúar 2022. Þau voru eftirfarandi:
Hrint konunni í eldhúsinu á heimili þeirra með þeim afleiðingum að hún féll og lenti með aðra höndina á heitri hellu.
Tekið upp eldhúshníf fyrir framan konuna, kastað honum frá sér og því næst tekið um háls hennar og barið höfði hennar í gólfið í viðurvist drengsins.
Hafa sótt, á meðan mæðginin sváfu, hníf og kallað konuna „helvítis hóru“ þegar hún hafi beðið manninn að leyfa þeim að sofa í friði og sagt þá að kannski ætti konan að sofna að eilífu.
Lokað drenginn inni í herbergi og haldið hurðinni fastri svo hann kæmist ekki fram.
Rassskellt drenginn fast.
Hafa gert grín að þeim hljóðum sem drengurinn gaf frá sér og hótað því að ef hann myndi ekki byrja að tala myndi lögreglan taka hann og senda aftur til Póllands og þar að auki öskrað á drenginn og konuna og barið í veggi íbúðarinnar.
Slegist við stjúpson sinn, son konunar. Þegar hún hafi reynt að ganga á milli þeirra hafi maðurinn sótt hníf og reynt svo aftur að komast að stjúpsyninum. Konan hafi reynt að hindra það en sonur þeirra hafi vaknað við öskrin í manninum og komið fram og séð þá hvað var um að vera. Konan hafi öskrað ítrekað á hjálp og opnað fram á stigagang en maðurinn hafi dregið hana aftur inn í íbúðina á hárinu. Loks hafi konan komist út úr íbúðinni og leitað til nágranna sem kölluðu til lögreglu. Þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi maðurinn í sama mund verið að stíga út úr íbúðinni og verið þá handtekinn. Sonur mannsins og konunnar mum, þegar lögreglumennirnir komu, hafa verið afar skelkaður og titrað af hræðslu.
Í dómnum segir að lögreglumenn hafi rætt við konuna í mars 2021 eftir eitt atvikið. Þar hafi hún lýst langvarandi ofbeldi bæði líkamlegu og andlegu af hálfu mannsins í garð hennar og sonar þeirra og sonar hennar, stjúpsonar mannsins. Stjúpsonurinn hafi hins vegar ekki kannast við neitt ofbeldi. Konan hafi tjáð lögreglunni að hún og maðurinn hafi flutt frá Póllandi til Íslands þremur árum áður en hann hafi einnig beitt hana ofbeldi þegar þau bjuggu saman í Póllandi. Hún hafi tjáð lögreglumönnum að hún vildi losna úr sambandinu og vonaðist jafnvel eftir aðstoð við að flytja til Póllands án mannsins.
Daginn eftir hafi konan gefið formlega skýrslu hjá lögreglu og þá lýst þeim verknuðum sem maðurinn var ákærður fyrir. Maðurinn neitaði öllum ásökunum en viðurkenndi þó að hafa rasskellt drenginn en það hafi verið vegna hegðunar hans og hafa lokað hann inni en hleypt honum strax út þegar hann hafi byrjað að gráta. Maðurinn hafi boðist til að yfirgefa heimilið í fjóra mánuði og ekki hafa samband við konuna á meðan. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi hins vegar hafnað beiðni um nálgunarbann og brottvísun mannsins af heimilinu.
Í dómnum kemur fram að slagsmálin milli stjúpsonarins og mannsins, þar sem konan gerði tilraun til að ganga á milli og maðurinn beitti hníf, hafi átt sér stað í febrúar 2022. Lögreglan hafi komið á vettvang og handtekið manninn en konan og báðir drengirnir hafi verið í miklu uppnámi og lýst ofbeldi af hálfu mannsins. Sýnilegir áverkar hafi verið á manninum og drengnum sem hafi verið staðfest við læknisskoðun. Eldri drengurinn, stjúpsonur meints ofbeldismanns, hafi daginn eftir dregið framburð sinn til baka og sagst hafa verið í uppnámi daginn áður og neitað að svara frekari spurningum lögreglu um málið.
Konan stóð við framburð sinn á þessum tímapunkti og endurtók hann við skýrslutöku. Í þetta sinn staðfesti Lögreglustjórinn á Suðurnesjum beiðni um nálgunarbann og brottvísun mannsins af heimilinu í mánuð. Sonur konunnar og mannsins sem þá var orðin sex ára staðfesti ekki frásögn sína af vettvangi í viðtali í Barnahúsi og neitaði að svara frekari spurningum um málið.
Í framburði mannsins fyrir dómi haustið 2023 kom aftur á móti fram að hann og konan byggju enn saman ásamt drengjunum og hann neitaði því alfarið að hafa beitt hana eða drengina ofbeldi.
Fyrir dómi nýttu konan og stjúpsonur mannsins rétt sinn samkvæmt lögum til að gefa ekki skýrslu í málinu og konan lýsti yfir vilja til að draga framburð sinn hjá lögreglu alfarið til baka.
Fyrir dóm komu nokkur vitni. Meðal annars fyrrverandi samstarfskona konunnar sem sagðist hafa séð áverka á henni og að konan hefði tjáð sér að maðurinn hefði beitt hana ofbeldi. Starfsmaður á leikskóla í Reykjanesbæ, sem yngri drengurinn sótti, sagði konuna hafa tjáð sér að maðurinn beitti hana og drengina báða ofbeldi.
Samstarfskona konunnar og eldri sonar hennar, stjúpsonar mannsins, sagði hana eitt sinn hafa hringt í sig óttaslegin og sagt manninn ætla að ganga í skrokk á eldri drengnum. Lögreglan hafi þegar verið komin þegar hún kom á staðinn og yngri drengurinn verið mjög hræddur. Samstarfskonan sagðist þó aldrei hafa séð áverka á konunni eða heyrt hana lýsa ofbeldi af hálfu mannsins. Hún sagði konuna hafa lýst því yfir að hún væri hrædd við manninn og hrædd við að gefa skýrslu. Það sama hefði eldri sonur hennar sagt. Konan væri enn með manninum þar sem hún ætti bágt með að komast í eigin íbúð.
Í dómnum segir hins vegar að ekkert vitnanna hafi beinlínis orðið vitni að því að maðurinn hafi beitt konuna og drengina ofbeldi.
Er það niðurstaða Héraðsdóms að þar sem konan hafi dregið til baka þær skýrslur sem hún gaf hjá lögreglu væru þær ekki nýtilegar sem sönnun í málinu. Þar sem engin önnur sönnunargögn væru til staðar fyrir því að maðurinn hefði beitt hana og drengina ofbeldi væri ekki annað hægt en að sýkna manninn af öllum ákærum.
Dóminn í heild er hægt að lesa hér.