fbpx
Miðvikudagur 05.mars 2025
Fréttir

Breiðfylkingin hvetur Samtök atvinnulífsins til að taka skref fram á við

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. janúar 2024 20:18

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í yfirlýsingu Breiðfylkingar stærstu stéttarfélaga og landssambanda verkafólks á almennum vinnumarkaði, sem send var fjölmiðlum fyrr í kvöld segir, að Samtök atvinnulífsins (SA) hafi hafnað nálgun hennar í þeim kjarasamningsviðræðum sem hófust milli jóla og nýárs. Hvetur Breiðfylkingin SA til að snúa af þeirri braut og taka skref fram á við en ekki til baka. Yfirlýsingin fer hér á eftir í heild sinni:

„Breiðfylking stærstu stéttarfélaga og landssambanda á almennum vinnumarkaði hóf viðræður við Samtök atvinnulífsins þann 28. desember. Á fundi þann dag kynnti Breiðfylkingin tillögur sínar um tilteknar launahækkanir í þriggja ára kjarasamningi, með ítarlegum útfærslum og rökstuðningi. Þær tillögur voru mjög hófsamar og byggðar á þekktri fyrirmynd, Lífskjarasamningunum frá 2019.

Heildarkostnaðarmat tillagna Breiðfylkingarinnar er vel innan þeirra marka sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir í Þjóðhagsspá sinni til næstu þriggja ára. Nánast er einsdæmi að verkalýðshreyfingin hafi í upphafi kjaraviðræðna lagt fram tillögur sem eru innan þeirra marka.

Á grunni þessara tillagna skapaðist mikil jákvæðni sem báðir samningsaðilar tjáðu í fjölmiðlum. Aðilar gáfu út sameiginlega yfirlýsingu, í kjölfar fundar þar sem Breiðfylkingin kynnti tillögur sínar, þar sem þeir hvöttu til aðhalds í gjaldskrár- og verðhækkunum. Jafnframt var varað við launaskriði, en það er einsdæmi að verkalýðshreyfingin á Íslandi taki undir með atvinnurekendum í gagnrýni á launaskrið.

Síðan þá hefur farið fram tímafrek og á köflum mjög tæknileg umræða milli samningsaðila um reiknilíkön. Í þeim umræðum hafa SA smátt og smátt fjarlægt sig frá upphaflegum, jákvæðum viðbrögðum sínum. SA hafa fengið það út að tillögur Breiðfylkingarinnar séu of kostnaðarsamar og í staðinn sett fram tillögur sem eru langt neðan við þær hóflegu hækkanir sem Breiðfylkingin lagði til í upphafi viðræðna. Breiðfylkingin hefur andmælt nálgun SA með gögnum og rökum í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Í á aðra viku hefur hvorki gengið né rekið í viðræðunum vegna andstöðu SA við launatillögur Breiðfylkingarinnar.

Breiðfylkingin vill hvetja SA til að snúa af þessari braut og taka skref fram á við, ekki til baka. Mikil ábyrgð hvílir á samningsaðilum að ganga í takt að settu marki. Það markmið er heildstæð kjarasamningagerð, studd af löngu tímabærum umbótum á tilfærslukerfum hins opinbera, þar sem hóflegar krónutöluhækkanir verði forsenda lækkunar á verðbólgu og vöxtum.

Breiðfylkingin hefur fyrir sitt leyti brugðist við kalli samfélagsins um ábyrga kjarasamningagerð og býst við því sama af öðrum. Breiðfylkingin hvetur SA til að rýna betur hófstilltar tillögur hennar og endurgjalda auðsýndan samningsvilja. Sé það gert þá er leiðin til farsællar kjarasamningagerðar greið.“

F.h. Breiðfylkingarinnar

Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands íslenzkra verzlunarmanna

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar – sambands iðnfélaga

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Bjarni blæs á gagnrýnina og segir ótvíræða kosti fylgja því að taka upp herskyldu hér á landi

Bjarni blæs á gagnrýnina og segir ótvíræða kosti fylgja því að taka upp herskyldu hér á landi
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Trump segir að Bandaríkin muni eignast Grænland á „einn eða annan hátt“

Trump segir að Bandaríkin muni eignast Grænland á „einn eða annan hátt“
Fréttir
Í gær

Leggja til 71 milljarðs króna sparnað í rekstri ríkisins

Leggja til 71 milljarðs króna sparnað í rekstri ríkisins
Fréttir
Í gær

Haraldur segir sjógang síðustu daga öðru en illviðri helst um að kenna

Haraldur segir sjógang síðustu daga öðru en illviðri helst um að kenna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helgi Seljan snýr aftur á RÚV – Byrjar í afleysingum

Helgi Seljan snýr aftur á RÚV – Byrjar í afleysingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stefán Einar öðlaðist mikla lífsreynslu í næturvinnu með háskólanámi – „Það er eitt sem augljóslega vandist aldrei“

Stefán Einar öðlaðist mikla lífsreynslu í næturvinnu með háskólanámi – „Það er eitt sem augljóslega vandist aldrei“