Ísland tapaði stórt gegn Ungverjalandi í síðasta leik sínum í riðlakeppni á EM í Þýskalandi. Fyrir leikinn var íslenska liðið komið áfram í milliriðil eftir sigur Svartfellinga á Serbum en í þessum leik var tekist á um hvort liðið færi með tvö stig inn í milliriðil.
Jafnt var á öllum tölum á upphafskafla leiksins en eftir um 12 mínútna leik fékk besti maður ungverska liðsins, hinn 125 kg línumaður Bence Bánhidi, rautt spjald eftir gróft brot á Gísla Þorgeiri. Við þetta virtist þó leikur íslenska liðsins riðlast meira en Ungverjanna sem komust í fjögurra marka forystu en leikur íslenska liðsins einkenndist af ráðleysi og mistökum. Íslendingar náðu þó að laga stöðuna og í hálfleik var hún 13:15 Ungverjum í hag.
Síðari hálfleikur var hreinasta hörmung af hálfu íslenska liðsins. Slakur varnarleikur og ráðleysi í sóknarleik voru einkennandi. Ungverjar juku muninn jafnt og þétt. Leikurinn var í raun tapaður um miðbik hálfleiksins þegar Ungverjar voru komnir í sjö marka forystu. Þeir héldu síðan bara áfram að auka forskotið.
Sem fyrr segir er Ísland komið í milliriðill með ekkert stig. Miðað við frammistöðu liðsins í kvöld má búast við að liðið tapi öllum leikjum sem framundan eru enda verður við afar sterkar þjóðir að etja, m.a. gestgjafana Þýskaland. Að óbreyttu verður liðið fallbyssufóður í milliriðlinum enda hefur frammistaðan í þessum riðli verið slök þrátt fyrir að liðið hafi komist áfram. Liðið náði hins vegar botninum hingað til í slakri spilamennsku í þessum leik gegn Ungverjum.
Lokatölur urðu 25:33 fyrir Ungverjaland.
Eins og nærri má um geta fóru handboltasérfræðingar hörðum orðum um frammistöðu íslenska liðsins eftir leikinn. Logi Geirsson sagði í viðtali við RÚV: „Hvar er andinn? Hvar eru stríðsmennirnir?“ – Sagðist hann hafa verið svo pirraður með frammistöðuna að hann langaði til að kasta plastflösku inn á völlinn.
Það var samdóma álit sérfræðinga í HM stofunni að andleysi hefði einkennt liðið í leiknum. Kristján Kári var harðorðari en Ásgeir Hallgrímsson og sagði að það liti út eins og liðið hefði ekki til að bera baráttuanda. Hann ítrekaði þó að það liti þannig út, hann væri ekki að meina að það væri raunin.
Eins og venjulega þegar Ísland keppir stóra landsleiki fóru netverjar á kostum, á Twitter og Facebook. Hér gefur að líta sýnishorn af því.
Algjör falleinkun à þessa leikmenn aðallega. Og vissulega þjálfara. Þetta lið vildi GG í burtu fyrir ári. Höndla engar kröfur. Enga samkeppni. Ekkert mótlæti.
Höfum ekkert i þennan milliriðil að gera.— Hannes Friðbjarnarso (@nesirokk) January 16, 2024
Sorglegt hvernig lykilmenn landsliðsins gera í brækurnar á stórmótum. Breytir engu hver þjálfar þetta lið á meðan hausinn er ekki sterkari.
Drulluðu í deigið í fyrra með Gumma Gumm og leikmenn vildu láta reka hann. Það var gert en sama búðinga hugarfarið áfram.
— Hörður S Jónsson (@hoddi23) January 16, 2024
Afhverju skjótum við alla undir meðallagi markverði í gang og þeir líta síðan allir út eins og Nicklas Landin!
— Rikki G (@RikkiGje) January 16, 2024
Plís reyniði að halda tapinu undir tveggja stafa tölu. #handbolti
— Höllin er úrelt (@Nyjahollstrax) January 16, 2024
Snorri Steinn í hálfleik: „Strákar ég man þegar ég var á Ólympíuleikunum með Óla Stef þá tók hann lag á þverflautu í hálfleik og las nokkra kafli úr Foucault fyrir okkur. Svo fór hann inn á og skoraði 17 mörk. Er einhver svona pælari í hópnum? Elliði ert þú með þverflautu?“
— Haukur Ingvarsson (@HaukurJonadab) January 16, 2024
Er hægt að kalla á Þorstein Leó? Hvar var Donni? Af hverju er hann yfir höfuð valinn? #handbolti
— Höllin er úrelt (@Nyjahollstrax) January 16, 2024