Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur mælst til þess að íbúar noti ekki pappírspoka undir lífrænan úrgang eins og á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður hefur pokunum verið dreift frítt í verslunum.
„Íbúar Fjallabyggðar hafa staðið í þeirri trú að nota skuli pappírspoka undir lífrænt efni en líklega hefur sá misskilningur farið af stað vegna auglýsinga Sorpu sem hirðir úrgang m.a. á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu bæjarins.
Beri íbúum Fjallabyggðar og öðrum Norðlendingum að nota maíspoka eða plastpoka undir lífrænan úrgang, sem er bannað á höfuðborgarsvæðinu. Framleiðsluferlið hjá Gaja jarðgerðarstöðinni sé allt annað en hjá Moltu sem taki við lífrænum úrgangi Norðlendinga frá Íslenska gámafélaginu.
Að sögn bæjarstjórnar er þetta hreinna og betra ferli en fyrir sunnan.
„Molta notast við annars konar tækjakost og framleiðsluferlið er allt annað en hjá Gaja. Molta notar tækni sem mengar minna, gerir ferlið hraðara og skilar betri moltu. Í ferlinu eru lífpokarnir skildir frá matar úrganginum og urðaðir sér,“ segir hún.
Hafi maís og plastpokar reynst vel fyrir flokkunaraðilana og ekki standi til að skipta yfir í pappírspoka.
Íbúar virðast vera nokkuð ringlaðir yfir þessu öllu ef marka má umræðuna á samfélagsmiðlum. Meðal annars er bent á að pappírspokarnir hafi verið gefnir í verslunum en ekki maíspokarnir.