Gasleki er ein af mögulegum dánarorsökum parsins sem fannst látið á Torrevieja í síðustu viku að sögn heimildarmanna DV. Ekki hefur tekist að fá það staðfest hjá lögreglunni eða ráðhúsinu í Torrevieja.
Parið voru ekki hjón eins og DV greindi áður frá heldur sambýlisfólk sem höfðu íbúð á leigu. Maðurinn var 73 ára gamall og konan 64 ára.
Eins og áður var greint frá var Ræðismannsskrifstofunni tilkynnt um andlátin miðvikudaginn 10. janúar. Utanríkisráðuneytið er einnig meðvitað um málið.
Að sögn heimildarmanna fundust maðurinn og konan látin í íbúðinni mánudaginn 8. janúar þegar lögreglan var kvödd að íbúðinni til að opna hana. Á föstudeginum áður og um helgina hafði fólk reynt að hafa samband við þau en ekki tekist. Ekki er því vitað hvenær þau létust.
Eins og áður segir hefur ekki tekist að fá upplýsingar um málið hjá lögreglunni í Torrevieja. Það er hvort krufningu sé lokið eða hvort málið sé rannsakað sem slys eða sakamál.