Páll segir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni sem birtist í gærkvöldi.
„Þar er borið mikið lof á náttúru, veitingastaði – og bara allt mögulegt,“ segir Páll en á listanum eru fjölmargir áhugaverðir staðir um allan heim, en Vestmannaeyjar eru eini staðurinn á öllum Norðurlöndum sem komast að á lista bandaríska stórblaðsins.
Það sem Páli þykir ekki síst áhugavert er að New York Times kýs að nota nafnið Vestmannaeyjar í grein sinni en ekki Westman Islands eins og gjarnan tíðkast hjá þeim sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
„Þetta er kannski vísbending um að ferðabransinn íslenski þarf ekki að sýna þá minnimáttarkennd að vera stöðugt að klína einhverjum bjánalegum enskum þýðingum á íslensk örnefni og staðarheiti,“ segir Páll í færslu sinni.
Bendir hann á að fyrir skemmstu hafi menn verið að velta fyrir sér hvað Kerið í Grímsnesi gæti heitið á ensku.
„Það þarf ekki að heita neitt á ensku. Bara útskýra orðið fyrir fróðleiksfúsum ferðamönnum – en það heitir Kerið!“