Viðbragðsaðilar á Suðurnesjum leita nú manns sem talinn er hafa fallið ofan í sprungu í Grindavík.
Vísir greindi fyrst frá. Í samtali við DV segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, að útkallið hafi borist um klukkan 10:40 í morgun. Lögreglumenn, slökkviliðsmenn og björgunarsveitarmenn séu að störfum á vettvangi.
Nákvæm staðsetning liggur ekki fyrir, en um sé að ræða stóru sprunguna sem liggur í gegnum bæinn, sem myndaðist í jarðhræringum síðustu vikna. Jón Þór sagðist ekki vita hvað margir eru á vettvangi við leitina, í hvaða erindum maðurinn var á svæðinu og hvað sprungan er djúp.
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið að störfum við að fylla upp í sprungu. Úlfar segist þó ekki vita til þess að nokkur hafi séð manninn falla ofan í sprunguna. Grunur hafi samt vaknað um slysið og viðbragðsaðilar því kallaðir út. Segir hann ekki tímabært að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Sjá einnig: Verkfæri mannsins fundust í sprungunni