Leit að manni sem talinn er hafa fallið í sprungu í Grindavík stendur enn yfir. Tilkynning um málið barst lögreglu klukkan 10:40 og voru björgunarsveitir kallaðar út í kjölfarið.
Víkurfréttir greindu frá því nú í hádeginu að verkfæri mannsins hefðu fundist í sprungunni.
Sjá einnig: Viðbragðsaðilar leita manns sem talinn er hafa fallið í sprungu í Grindavík
Var það vinnufélagi mannsins sem tilkynnti að hann væri horfinn en þeir unnu að því að fylla í sprungu í bænum.
Viðbragðsaðilar eru að störfum í Vesturhópi þar sem stór sprunga opnaðist í jarðhræringunum undir lok síðasta árs.
Í frétt Víkurfrétta kemur fram að um tugur sérsveitarmanna hafi verið sendur frá Reykjanesbæ og eru þeir með búnað til að síga niður í sprunguna auk þess að vera með myndavélabúnað.