fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Gunnar Bragi: Svona þarf næsti forseti að vera

Eyjan
Mánudaginn 8. janúar 2024 13:30

Gunnar Bragi Sveinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, segir að íslenska þjóðin þurfi ekki öfgamanneskju í stól forseta. Forsetakjör er fram undan síðar á árinu eftir að Guðni Th. Jóhannesson ákvað að bjóða sig ekki fram að nýju.

Gunnar Bragi gerir forsetaembættið að umtalsefni í pistli á Facebook þar sem hann bendir á að sýn fólks á forsetaembættið sé misjöfn, eðlilega.

„Sumir telja að forsetinn eigi fyrst og fremst að vera tákn og gera sem minnst meðan aðrir telja að hann eigi að gera eitthvað gagn með fram öðrum verkefnum forseta. Ég er í seinni hópnum,“ segir hann og bendir á að forsetar Íslands hafi flestir látið til sín taka á ákveðnum sviðum, svo sem menningu, í umhverfismálum, gagnvart íslenskri tungu, viðskiptum og norðurslóðum.

„Þar hafa þeir, hver á sinn hátt, vakið athygli á landi og þjóð og þannig aukið hróður lands og þjóðar víða um heim og tekið upp varnir þegar á okkur er herjað. En þeir hafa líka staðið sig vel í því að halda utan um þjóðina þegar á þarf að halda.“

Gunnar Bragi, sem var utanríkisráðherra á árunum 2013 til 2016, segir að á tímum hafi sumum fundist forseti dansa á línu þess sem embættið felur honum og svo því sem stjórnmálamenn eiga að fást við.

„Það er eðlilegt að slíkt komi upp og kallar kannski frekar á að hlutverkið sé skýrt fremur en að forsetinn eigi að sitja stilltur og prúður og bíða eftir næstu myndatöku.“

Að þessu sögðu segir Gunnar Bragi að forsetinn eigi ekki að vera með puttana í daglegum störfum stjórnmálamanna og skoðanir hans á þeirra störfum geti hann rætt við þá. Hann segir að forsetinn þurfi samt ekki að vera skoðanalaus en þurfi þó að þekkja stað og stund fyrir sínar skoðanir svo lýðræðislegt kerfi okkar nái að virka um leið og hann þarf að hafa kjark til að treysta þjóðinni þegar mikið liggur við.

Gunnar Bragi spyr hver eigi þá að verða næsti forseti.

„Næsti forseti þarf að þekkja innviði íslensks samfélags, hvernig þessi fámenna þjóð hefur náð þetta langt á svo stuttum tíma, hvernig það var gert og hvaða áskoranir bíða.

Forsetinn má ekki vera öfgamanneskja heldur aðili sem sem skilur rök og getur siglt í gegnum deilur hvers tíma. Hann getur haft skoðanir og brýnt menn til að nýta skynsemi til ákvarðanatöku. Það er t.d. ekki forsetans að hvetja til þess að íslensk náttúra sé nýtt eða ekki nýtt fyrir komandi kynslóðir. Hann getur hins vegar hvatt þá sem fara með ákvarðanatökuvaldið að rýna til gagns kosti, galla og afleiðingar,“ segir hann og heldur áfram:

„Forsetinn á hins vegar að vera reiðubúinn að vinna fyrir land og þjóð hvar sem er í heiminum, tala fyrir kostum lands og þjóðar, nýta stöðu sína til koma gæðum lands og þjóðar á framfæri, ekki eins og farandsali (með fullri virðingu fyrir þeim) heldur vegna þess að forsetinn gerir það sem gagnast samfélaginu, þjóðinni, landinu og leggur hönd á plóg.

Við þurfum því vinnusaman forseta sem getur talað við þjóð sína sama hvaða stöðu þegnar hennar gegna en um leið gagnast henni í að efla og auka hagsæld hennar. Við þurfum forseta sem ekki hræðist fólk sitt og verkefni þess, sem getur skilið mismunandi skoðanir og borið virðingu fyrir þeim. Ég hlakka til að kjósa slíkan einstakling.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum