Eins og alþjóð veit varpaði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þeirri sprengju á nýársdegi að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í embættið síðar á árinu. Tíðindin komu nánast öllum í opna skjöldu og gert það að verkum að fjölmargir einstaklingar liggja nú undir þykkum feld og íhuga framboð. Þrír hafa þegar skriðið undan feldinum, Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon og Tómas Logi Hallgrímsson, en búast má við að næstu vikur og mánuðir verði viðburðaríkir varðandi framboð og umræður um þau.
Framboðsfrestur rennur út á hádegi 26. apríl og því er nægur tími til stefnu. Þá er ekki vitlaust fyrir áhugasama að kynna sér allt það sem gott er að vita áður en lagt er stað í forsetavegferðina.
DV tók saman nöfn nokkurra þeirra einstaklinga sem minnst hefur verið á varðandi hugsanlegt framboð. Nú gefst lesendum möguleiki á að kjósa eitt nafn sem þeim líst best á sem gæti mögulega aukið líkurnar á því að einhver sem er að íhuga málið láti slag standa, jafnvel þó viðkomandi hafi gefið lítið fyrir það hingað til. Þá gæti léleg útkoma í könnuninni einnig orðið til þes að einhverjir koma aldrei undan feldinum heldur hverfa hljóðlega aftur til sinna hversdagslegu starfa.