Tómas Logi Hallgrímsson, rafvirki og félagi í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði, hefur formlega tilkynnt framboð sitt til embættis forseta Íslands.
Sjá einnig: Mun Tómas Logi bjarga Bessastöðum næst? – „Alvarlega að íhuga kosti og galli“
Það gerði hann með yfirlýsingu til fjölmiðla fyrir stuttu, í henni segir:
„Kæru landsmenn, Eftir mikla ígrundun og fjölda áskoranna úr ýmsum áttum síðustu daga hef ég tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til embættis forseta Íslands.
Það verður að segjast að ég átti alls ekki von á svona miklum stuðningi frá fólkinu í kringum mig, fjölskyldu, vinum og kunningjum.
Nú mun fara í hönd áætlanavinna um það sem framundan er og þigg ég alla þá aðstoð sem mér býðst í hvaða formi sem það er.
Með kærri kveðju: Tómas Logi Hallgrímsson.“
Tómas Logi er 37 ára, giftur og þriggja barna faðir. Á Facebook-síðu sinni segir hann:
„Jæja krakkar þá er komið að þessu. Ég hef tekið ákvörðun um að „kýla á það„. Takk fyrir öll þau fjölmörgu skilaboð sem ég hef fengið með hvatningu um að bjóða mig fram. Ég mun glaður þyggja þá aðstoð sem mér býðst í hvaða formi sem hún er, það er í mörg horn að lýta og ég þekki þau eflaust ekki öll.“
Tómas Logi er svo þegar búinn að setja upp síðu á Facebook fyrir framboðið: Tómas Logi á Bessastaði 2024.