Svavar Guðmundsson, félagsmaður í Blindrafélaginu, sakar stjórnendur félagsins um að skammta sér alltof há laun miðað við umsvif félagsins í hvassri aðsendri grein í Morgunblaðinu í morgun.
Segir Svavar að á nýlegum aðalfundi félagsins hafi félagsmenn loks fengið upplýsingar um laun helstu stjórnenda en um árabil hafði félagið hafnað að veita þessar upplýsingar á grundvelli persónuverndarsjónarmiða.
Þá hafi komið í ljós að framkvæmdastjóri félagsins, Kristinn Halldór Einarsson, væri með 1,4 milljónir á mánuði auk annarra fríðinda eins og síma, internet og akstur til og frá vinnu. Þá væri formaður stjórnar félagsins, Sigþór U. Hallfreðsson, með 550 þúsund krónur á mánuði fyrir sín störf en hann er í annarri fullri vinnu samhliða stjórnarformennskunni.
„Þetta allt er ansi vel í lagt hjá litlu almanna heillafélagi sem veltir um 180 milljónum á ári fyrir velvilja almennings og happdrættissölu,“ skrifar Svavar og bendir á að stjórarformenn skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni sem og stórra ríkisstofnanna séu með lægri laun fyrir stjórnarformennsku sína.
Reiknast Svavari til að samanlögð árslaun Kristins og Sigþórs séu um 30 milljónir króna og að það sé alltof hátt hlutfall af heildartekjum Blindrafélagsins. „Það sér það hver „blindur“ maður,“ skrifar Svavar og segir að um „algjöra ofskömmtun sé að ræða.“
Þá var einnig óskað eftir upplýsingum um verktakagreiðslur til eiginkonu Kristins Halldór sem hefur séð um leikfimitíma fyrir félagsmenn Blindrafélagsins.
„Hún kennir leikfimi einu sinni í viku tvo tíma í senn þar sem mæta um 4-6 manneskjur í hvert sinn. Endurskoðandi félagsins upplýsti þá að eiginkonan hefði spriklað 82 klukkustundir á árinu og fengið fyrir tæpar 2,8 milljónir. Sem gerir tæpar 33 þúsund krónur á tímann án vsk., sem gerir eiginkonu framkvæmdastjórans trúlega að dýrasta leikfimikennara landsins,“ skrifar Svavar.
Segir hann þetta enn eitt dæmið um sjálftöku stjórnenda og að gáfulegra væri að borga fyrir árskort félagsmanna í einhverja líkamsræktarstöðina,