fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Margir minnast Guðbergs – „Einn fárra sem sagði satt“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 6. september 2023 10:00

Guðbergur hreyfði við mörgum á löngum ritferli.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn Guðbergur Bergsson er látinn níræður að aldri. Guðbergur, sem var Grindvíkingur að uppruna en bjó lengi erlendis, skrifaði fjölda skáldsagna, smásagna og ljóðabók á ferli sem spannaði meira en hálfa öld. Á meðal hans þekktustu verka eru Tómas Jónsson, metsölubók frá árinu 1966 og Svanurinn frá árinu 1991 sem var seinna kvikmynduð.

Verk Guðbergs voru þýdd á að minnsta kosti tug tungumála og hlaut hann mörg verðlaun, þar á meðal íslensku bókmenntaverðlaunin í tvígang. Árið 1994 var Guðbergur sæmdur fálkaorðunni.

Guðbergur lést á heimili sínu í Mosfellsbæ eftir skammvinn veikindi á mánudag. Hann skilur eftir sig sambýlismann, flugmann og framkvæmdastjóra.

 

Risastór og hafði mikil áhrif

„Guðbergur var risastór og hafði mikil áhrif á okkur flest, sem rithöfundur, skáld, þýðandi, gagnrýnandi. greinandi og óþekkur maður,“ segir blaðamaðurinn Gunnar Smári Egilsson um andlát Guðbergs.

„Eftir hann liggja mörg ævistörf sem hann færði okkur og gaf. Ég fullorðnaðist náttúrlega af öðru og hefði fullorðnast hvort sem er, en Guðbergur hafði mikil áhrif á hvernig ég fullorðnaðist. Eflaust er þetta kynslóðatengt, ég hef ekki hugmynd um hvernig Tómas Jónsson slær fjórtán ára börn í dag. Mér hefur ekki einu sinni tekist að fá börnin mín til að lesa hana. En fyrir okkur sem ólumst upp inn í hráslaga eftirstríðsáranna var Guðbergur einn fárra sem sagði satt.“

Gunnar Smári sér eftir að hafa ekki þakkað Guðbergi á sínum tíma fyrir allt sem hann gaf sér.

Gunnar Smári segist hafa fengið Guðberg til að skrifa gagnrýni í eitt af þeim blöðum sem hann ritstýrði. Átti hann þá við hann kurteis og fáorð samskipti. Segist Gunnar Smári hafa séð eftir að hafa ekki þakkað honum fyrir allt sem hann gaf sér.

„Svo kallar maður út í tómið vitandi að enginn heyrir lengur: Kærar þakkir fyrir mig, Guðbergur,“ segir hann.

 

Hefur eitthvað breyst?

„Guðbergur var svipmikill einstaklingur, frumlegur rithöfundur, beittur penni og skarpskyggn stjórnmálarýnir. Hann fór aldrei alfaraleið,“ segir Hannes Hólmsteinn Gunnarsson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði.

Minnist hann svo frásagnar Guðbergs um sig frá árinu 2003.

„Hann vék góðu að mér, skrifaði til dæmis í DV árið 2003: „Það er næstum sjúklegt hvað sumir hafa mikla andúð á Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Á sínum tíma var hann ekki talinn hæfur til að kenna nemendum við Háskólann þótt hann hefði lært og verið doktor frá Oxford.“ Og hann hélt áfram: „Hin einkennilega afstaða til Hannesar kemur helst fram hjá þeim hluta „vinstraliðsins“ sem hefur misst niður um sig buxurnar í stjórnmálum, listum, bókmenntum og menningarmálum. Áður var það allsráðandi þar. Nú kemur aðeins frá því leifar af hugsun fólks sem komst í „kramið“ með því að selja sig í svo litlum skömmtum að það heldur að enginn taki eftir því. En sýnilegi árangurinn er sá sami hér og í flestum löndum þar sem afturhaldið hefur sigrað að undanförnu. Í valdastöðum er sægur af þessu smáskammtafólki: fyrrum marxistum, lenínustum, trotskíistum og æskulýðsfylkingarfólki.“ Liðin er tuttugu ár, frá því að Guðbergur skrifaði þetta. Hefur eitthvað breyst?“

 

Loki, hinn bragðvísi og hrekkjótti

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, minnist Guðbergs með myndlíkingu úr norrænni goðafræði.

„Hafi Thor verið Þór á sínum tíma í bókmenntakerfinu og Svava verið Gunnlöð, en Halldór Laxness verið Óðinn og Guðrún frá Lundi Freyja (Þórbergur kannski Týr) – og þannig koll af kolli – þá var Guðbergur Loki,“ segir Guðmundur Andri. „Hann var hvað sem öðru líður hinn bragðvísi og hrekkjótti guð sem öllu hleypti í bál og brand þar sem hann beitti sér, fagur og ómótstæðilegur og alkynja, óútreiknanlegur og styggur.“

Guðmundur Andri lýsir Guðbergir með myndlíkingu.

Guðmundur Andri nefnir einkum verk Guðbergs frá sjöunda áratugnum. Þá hafi hann málað íslenskt samfélag eins og það blasti við honum, sigldum manninum, í smáatriðum og af natni.

„Hann skráði þvaðrið, útmálaði slabbið og rokið og drulluna og slorið, hálfmenntað yfirborðsrausið í menntuðu millistéttinni – lesendum hans, sem hann sýndi alltaf sérstaka forakt en elskuðu vöndinn hans, elskuðu að láta hann hirta sig – og hann skráði fylliríisþruglið í elliærri aldamótakynslóðinni. Það var ekki hið unga Ísland sem blasti við í verkum hans heldur hið gamla og gelda og úrsérgengna Ísland. Stöðnun og þrúgandi andleysi,“ segir Guðmundur Andri.

 

Maður ímyndunaraflsins

Halldór Guðmundsson, fyrrverandi útgáfustjóri Máls og Menningar, minnist Guðbergs einnig.

„Við vorum nokkrir strákar í menntaskóla sem ákváðum að skrópa í skylduferðinni á Njáluslóðir og tróðum okkur frekar inn í gamlan fólksbíl til að fara á söguslóðir Guðbergs í Grindavík. Ekki segi ég að við höfum verið miklu nær enda ferðin öðru fremur táknræn: Guðbergur var í huga okkar fulltrúi hins nýja, róttæka, krítíska og óþekka í íslenskum sagnabókmenntum, maðurinn sem hafði skrifað Leikföng leiðans, Önnu og Tómas Jónsson metsölubók, svo dæmi séu nefnd. Og maður ímyndunaraflsins,“ segir Halldór.

Vitnar hann meðal annars í skáldsöguna Önnu frá árinu 1968 því til stuðnings.

„Og nú eru kaflaskil og þessi lesandi þakkar fyrir sig. Samúðarkveðjur til Guðna og annarra aðstandenda,“ segir Halldór.

 

Líf án erfiðleika er ekkert líf

Fleiri þakka fyrir fyrir sig í styttri færslum. Meðal annars leikstjórinn Viðar Eggertsson sem vitnar í leikrit Guðbergs, Sannar sögur af sálarlífi systra. „Líf án erfiðleika, er ekkert líf. Heldur sæluríki dauðans“.

„Þá kveður Guðbergur, þessi blíða og viðkvæma listamannssál sem skreytti sig þyrnum og hornum til að halda fólki á tánum og stundum í skefjum,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi og fyrrverandi blaðamaður. „Takk fyrir allar stundirnar á Vifilsgötunni elsku Guðbergur, ketilkaffi og brauð með kæfu og ómetanlegar sögur, lærdóm, hlátur, skemmtun og líka sorg. Minnst af því fór á prent en ekkert er gleymt. Þú átt alltaf sérstakan stað í hjarta mínu sem mikilvæg manneskja og sem ómetanlegur listamaður.“

Illugi segir Guðberg hafa sagt okkur allt, blákalt.

„Hann var alltaf að hugsa eitthvað. Og svo sagði hann okkur frá því. Alveg blákalt,“ segir Illugi Jökulsson, blaðamaður og rithöfundur. „Takk fyrir bækur, skálksskapinn, hugsanirnar, fróðleikinn, þýðingarnar, hnarreista einsemdina sem hann veitti okkur hlutdeild í.“

„Blessuð sé minning Guðbergs. Hann var mögnuð persóna,“ segir listamaðurinn Snorri Ásmundsson.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka
Fréttir
Í gær

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“