Ísland er á meðal vinsælustu áfangastaðanna fyrir bandarísk pör að gifta sig í leyni. Þetta kemur fram í greiningu kirkjunnar Chapel of Flowers í Las Vegas en sú borg er einmitt rómuð fyrir leynigiftingar.
Greiningin er byggð á leitarniðurstöðum frá Google og ýmsum samfélagsmiðlum. En kirkjan vildi komast að því hvert bandarísk pör færu til að gifta sig án þess að láta fjölskyldur sínar eða vini vita fyrir fram.
Það kemur ekki á óvart að Las Vegas er í efsta sæti á listanum. Er það orðin hálfgerð klisja að láta Elvis Presley eftirhermu gefa sig saman í neon-upplýstri kapellu í þeirri borg.
Í öðru sæti kemur Ítalía sem skartar Miðjarðarhafsloftslagi, góðum mat, fallegu landslagi og sögufrægum stöðum. Í þriðja sæti er Skotland sem skartar ekki Miðjarðarhafsloftslagi og verður seint þekkt fyrir matseld. En landslagið, sagan og stemningin vinnur með landinu.
Ísland er í áttunda sæti á listanum. Hér hafa sprottið upp nokkur fyrirtæki sem sérhæfa sig í giftingarþjónustu fyrir erlend pör. Vinsælt er að gifta sig við náttúruperlur á borð við Seljalandsfoss eða í jökulhellum Vatnajökuls.
Aðrir staðir á listanum eru löndin Spánn og Grikkland og borgirnar Nashville, New Orleans og New York.