Aðalmeðferð í Bankastræti Club málinu er nú hafinn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Brotið er blað í sögu dómskerfisins með þessum réttarhöldum vegna gífurlegs umfangs þeirra. Aðalmeðferðin er ekki í húsi héraðdsóms heldur í veislusal að Gullhömrum í Grafarholti. Yfir 50 manns gefa skýrslu fyrir dómi og sakborningar eru alls 25.
Ljósmyndari DV var á vettvangi og tók meðfylgjandi myndir í aðdraganda réttarhaldanna. Ljósmyndataka var síðan bönnuð inni í húsinu um kl. 9:55, eða nokkrum mínútum áður en aðalmeðferð hófst. Sakborningar koma inn í salinn einn í einu og bannað er að mynda þá. Þeir héldu til í bakherbergi fyrir byrjun aðalmeðferðar fyrir utan einn sem kom í lögreglufylgd á staðinn skömmu fyrir upphaf þinghalds.
Fyrsti sakborningurinn sem leiddur var inn í salinn fyrir dóminn huldi ekki andlit sitt en var snyrtilega klæddur í jakkaföt.
Ró og yfirvegun einkenndu þinghaldið og allt fór vel fram.
Sakborningar eru alls 25. Málið snýst um innrás hóps manna inn á skemmtistaðinn Bankastræti Club í nóvember árið 2021. Þar voru þremur mönnum veittir áverkar, m.a. með hnífi. Hlutdeild sakborninganna 25 í málinu er mjög mismikil. Sumir beittu mennina ofbeldi en aðrir voru eingöngu á vettvangi.
Athyglisvert er að dómari málsins, Sigríður Hjaltested, hefur meinað sakborningunum varð vera viðstadda aðalmeðferð málsins. Þeir eiga að gefa skýrslu, hver og einn, og fara síðan út í kjölfarið. Í málsgrein 3.1. í 166 grein laga um meðferð sakamála segir: „Við aðalmeðferð máls fara að jafnaði fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur flutningur máls. Ákærði á rétt á að vera við aðalmeðferð máls. Dómari getur þó ákveðið að hann víki af þingi meðan skýrsla er tekin af öðrum sem eru ákærðir í málinu eða meðan vitni gefur skýrslu, sbr. 123. gr.“
Aðalmeðferð hófst klukkan 10 í morgun og mun standa í rúma viku. Fjölmiðlabann frá skýrslutökum í málinu gildir fram á fimmtudag.