Bíræfnir einstaklingar brutust inn á hótelherbergi í Hlíðahverfi í nótt. Lögreglan þekkti þá úr eftirlitsmyndavélakerfi og handtók þá skammt frá hótelinu. Málið er í rannsókn að sögn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu lögreglunnar eftir nóttina.
Nokkuð var um innbrot í nótt. Meðal annars var tilkynnt um innbrot í tvær verslanir, önnur þeirra í miðborginni en hin í Múlahverfi. Þá var einnig tilkynnt um innbrot í bíl í Vesturbænum.
Vitaskuld voru mörg verkefni lögreglunnar tengd ölvun á laugardagskvöldi. Á skemmtistað í Vesturbænum var tilkynnt um ölvaðan og æstan einstakling. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til rennur af honum áfengisvíman.
Annar ofurölvi einstaklingur var til vandræða á skemmtistað í miðborginni. Neitaði hann að gefa upp nafn og var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Í Breiðholtinu var tilkynnt um ölvaðan mann í anddyri blokkar. Hann hafði hins vegar hypjað sig þegar lögreglu bar að. Þá voru einnig teknir tveir stútar í umdæmi miðborgarlögreglunnar.
Í Garðabæ var tilkynnt um slagsmál við verslun og í Kópavogi mikil læti frá hönum í búri.
Einn slasaðist eftir að hafa fallið af rafmagnshlaupahjóli og var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.