fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Ingunn lifði af ofsafengna hnífsstunguárás í Oslóarháskóla – „Fyrsta tilfinningin sem ég fann fyrir var undrun. Og síðan kom hræðslan”

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 23. september 2023 09:00

Ingunn Björnsdóttir. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 24. ágúst síðastliðinn varð Ingunn Björnsdóttir, dósent í lyfjafræði við Oslóarháskóla, fyrir ofsafenginni hnífaárás nemanda. Ódæðið vakti gríðarlega athygli í Noregi og í raun um alla Skandinavíu enda nánast óþekkt að starfsmenn háskóla þurfi að óttast um öryggi sitt. Árásarmaðurinn veitti Ingunni minnst sextán stunguáverka, þar á meðal alvarlega stungu í kvið, og er það kraftaverk að hún hafi lifað árásina af. Eftir nokkra erilsama daga á Ullevål-háskólasjúkrahúsinu ákvað Ingunn, sem var langt frá því að vera ferðafær, að halda heim til Íslands til að fá frið til að jafna sig eftir árásina.

„Þetta er einhver erfiðasta vinna sem ég hef verið í, að liggja á sjúkrabeði,” segir Ingunn og brosir þar sem við mælum okkur mót á heimili fjölskyldumeðlims hennar á höfuðborgarsvæðinu. Þar fær Ingunn að dvelja, „í felum” eins og hún grínast með sjálf, því stigarnir að hennar eigin íbúð eru óyfirstíganlegur hjalli á meðan sár hennar eru að gróa.

Satt best að segja vissi ég ekki við hverju var að búast þegar við settumst niður til að ræða þessa hræðilegu lífsreynslu enda stutt frá henni liðið. Það er þó fljótlega ljóst að Ingunn er að tækla verkefnið með aðdáunarverðum hætti, horfir á hlutina með rökfestu . Þó hún eigi erfitt með að bera sig að vegna sára sinna þá er aldrei langt í húmorinn þegar hún segir frá. Þá eru tilfinningar hennar í garð árásarmannsins eftirtektarverðar en við víkjum að því síðar.

Undraðist hvernig læknar ávísuðu sýklalyfjum

Ingunn hefur starfað í Oslóarháskóla í áratug eða frá því í október 2013 og er nokkur saga að segja frá því af hverju hún ákvað að sækja atvinnu sína þangað enda á Ísland hug hennar allan. Reynsla hennar er þó fjölþjóðleg en hún lauk mastersnámi í lyfjafræði við háskóla í Kaupmannahöfn og hélt þá heim til Íslands að vinna í apóteki.

„Þar fór ég fljótlega að undrast hvernig læknar voru að ávísa sýklalyfjum, stundum jafnvel við kvefi, sem hefur engin áhrif;” segir Ingunn.

Að endingu var henni nóg boðið og hafði hún samband við gamlan kennara sinn í Kaupmannahöfn vegna þessa og fljótlega var hún byrjuð í doktorsnámi við sinn gamla skóla. Því námi lauk hún á sjö árum með nánast fullri vinnu allan tímann.

„Það var auðvitað mikil vinna en að sama skapi er allt hægt þegar maður hefur brennandi áhuga á einhverju,” segir Ingunn.

Eftir námið fór hún að vinna hjá Stéttarfélagi íslenskra lyfjafræðinga, sem síðar var sameinað Lyfjafræðingafélaginu. Síðar tók hún við við nokkra mánaða verkefni hjá Tryggingastofnun í 40% starfi til viðbótar Stéttarfélagsstarfinu. Við sameiningu Stéttarfélags íslenskra lyfjafræðinga og Lyfjafræðingafélagsins varð Ingunn framkvæmdastjóri Lyfjafræðingafélagsins.

Rússneska mafían lét kollega mögulega hverfa

Hugurinn leitaði þó alltaf til frekara náms og fljótlega eftir að hafa útskrifast fékk Ingunn svo boð um nýdoktorsverkefni við Háskólann í Toronto en sú staða hafði losnað með heldur undarlegum hætti. „Það hafði fengist styrkur í verkefnið fyrir rússneska konu en svo hvarf hún, bókstaflega, og þá var mér boðið að nýta styrkinn,” segir Ingunn og brosir þegar blaðamaður hváir við.

„Leiðbeinandi minn taldi að rússneska mafían hefði tekið hana en það veit ég svo sem ekkert um. En það þótti ekkert tiltökumál að einhver hyrfi sporlaust í Toronto og til þessarar konu spurðist aldrei meir,” segir Ingunn, sem sinnti verkefninu meðfram störfum hér heima og flaug ítrekað á milli Toronto og Reykjavíkur þessi tvö ár.

Ingunn kann vel við lífið í Noregi þó að hugurinn sé alltaf við Ísland

Óhrædd við verða óvinsæl

Ingunn hefur sterkar skoðanir og er óhrædd við að fylgja sannfæringu sinni, jafnvel þó að það falli ekki í kramið hjá öðrum. Þannig fékk hún starf hjá heilbrigðisráðuneytinu og fékk þá í hendurnar snúið verkefni sem hún vissi að yrði ekki til vinsælda fallið. „Og það raungerðist, ég varð gríðarlega óvinsæl,” segir Ingunn og hlær dátt.

Frá heilbrigðisráðuneytinu fór hún svo í starf hjá Embætti landlæknis og þar átti hún eftir að hefja baráttu sem enn fylgir henni. „Ég rak mig fljótlega á umfangsmiklar villur í Lyfjagagnagrunninum sem snerust um rangar skilgreiningar á skilgreindum dagskömmtum sjúklinga. Ég einsetti mér að lagfæra þetta en með því varð ég eiginlega persona non grata innan nokkurra stofnanna sem áttu það eflaust sameiginlegt að starfsmenn þar fundu að þau hefðu getað gert betur,” segir Ingunn.

Ingunn fann það glöggt að kerfi eiga til að verjast breytingum með kjafti og klóm og að lokum komst hún að þeirri niðurstöðu að kerfinu myndi hún ekki breyta innan frá.

„Ég ákvað að sækja um tvö störf utan landsteinanna. Annars vegar háa stöðu hjá alþjóðasamtökum lyfjafræðinga og síðan stöðu hjá Oslóarháskóla. Ég var búinn að segja kollega mínum að ef ég fengi starfið hjá samtökunum þá yrði hann að taka við baráttunni um breytingarnar á Lyfjagagnagrunni. Ef ég fengi hins vegar háskólastarfið þá myndi ég gera íslenska kerfið að rannsóknarefni mínu. Það varð raunin og ég er náttúrulega búin að vera gjörsamlega óþolandi síðan,” segir Ingunn kímin.

Hún hafi þó náð með hjálp kollega sinna og nemenda náð að ýta breytingum hérlendis í gegn þó að enn sé verk fyrir höndum.

Danmörk of flöt og vatnið vont

Síðastliðinn áratug hefur Ingunn því starfað í Noregi en alltaf horft til Íslands. „ Ég hef stundum upplifað að það fari í taugarnar á kollegum mínum í Noregi. Þessi óbilandi áhugi minn að stuðla að breytingum á Íslandi frekar en að einbeita mér að Noregi,” segir Ingunn.

Hún segist kunna afar vel við sig ytra og að starfið sé fjölbreytt og skemmtilegt. „Eftir háskólanámið í Danmörku þá á ég mikið af vinum þar. Ég gat hins vegar ekki hugsað mér að búa í Danmörku því landið er of flatt fyrir mig og vatnið vont,” segir Ingunn og brosir.

Fjallasýnin og vatnið í Noregi sé þó með miklum ágætum og uppfylli allar hennar kröfur. „Ég hef þó ekki byggt upp sama baklandið af vinum hér og í Danmörku og auðvitað á Íslandi þar sem börnin mín tvö og fjölskylda er. Það var líka ástæða þess að ég vildi komast strax af spítalanum í Osló og til Íslands þó að ég væri vart ferðafær.”

Ingunn segir að það hafi komið sér á óvart að hún beri engan kala til árásarmannsins

Fyrsta tilfinningin var undrun

Tæpur mánuður er liðinn frá árásinni hrottalegu sem greint var frá í öllum helstu fjölmiðlum Norðurlandanna. Lyfjafræðideildin sem Ingunn starfar við er ekki stór og eru um 50 nemendur sendir í apóteksvistun frá henni ár hvert. Þetta er því lítið samfélag og Ingunn þekkir því alla nemendur apóteksvistunar en mismikið þó eins og gefur að skilja. Komið hefur fram í fjölmiðlum að árásarmaðurinn, sem var nemandi við háskólann, mætti á fund til Ingunnar og samstarfskonu hennar á deginum örlagaríka.

Sá fundur hafði varað í nokkurn tíma þegar nemandinn dró skyndilega upp hníf og réðst á Ingunni sem átti sér einskis ills von. „Þetta var ósköp hefðbundinn og venjulegur fundur sem hafði varað í dágóðan tíma áður en þetta gerist,” segir Ingunn og bætir við að þegar hún hugsi til baka hafi ekkert bent til þess að árás væri yfirvofandi.

„Fyrsta tilfinningin sem ég fann fyrir var undrun,” segir hún. „Og síðan kom hræðslan.

Hún segir að hver einasta sekúnda árásarinnar sé sem greypt í huga hennar en Ingunn barðist eins og ljón fyrir lífi sínu. Þannig hlaut hún mikla áverka á vinstri handlegg og hendi þar sem árásarmaðurinn skar á vöðva og sinar. Þá hlaut hún einnig djúpa skurði á hægri fæti, sem gefur vísbendingu um hversu ofsafengin árásin, en þar sködduðust taugar og sinar.

Fann engan sársauka á meðan árásinni stóð

Þegar árásarmaðurinn náði að stinga Ingunni í kviðinn man hún eftir því að hafa hugsað að þetta yrði endalok hennar.

„Á þeim tímapunkti var ég viss um að ég myndi deyja. En það var svo merkilegt að þegar ég var orðin sannfærð um það þá fann ég að ég óttaðist ekki dauðann. Það er mjög sterk minning.”

Þá hafi henni fundist merkilegt að hún fann ekki fyrir neinum sársauka á meðan á árásinni stóð og þrátt fyrir allar hnífstungurnar. „Það kom miklu síðar og til dæmis upplifði ég miklu meiri sársauka þegar verið var að sprauta mig með lyfjum á sjúkrahúsinu,” segir Ingunn.

Samstarfskona hennar, sem kom til hjálpar, særðist líka í árásinni en fljótlega kom annar kollegi til hjálpar og að endingu komst Ingunn undan árásarmanninum og náði að staulast helsærð út af skrifstofunni þar sem fullt af fólki kom aðvífandi.

„Ég man að ég ætlaði að leita mér skjóls í nærliggjandi ljósritunarherbergi og ég man líka að þegar ég komst loks undan þá fannst mér mjög skrýtið af hverju ökklinn á hægri fæti lét ekki að stjórn,” segir Ingunn. Blessunarlega náði Ingunn ekki að loka sig af inni enda óvíst hvort hún hefði þá lifað árásina af. „Skyndilega helltist yfir mig sú tilfinning að ég væri að falla í yfirlið og þá ákvað ég að leggjast á gólfið enda var fólk að koma aðvífandi að mér.”

Hún segist að samstarfsfólk sitt hafi unnið kraftaverk með viðbrögðum sínum. „Það er eiginlega alveg ótrúlegt eftir á að hyggja hvað þau brugðust öll hárrétt við, bæði skyndihjálp sem mér var veitt og hversu fljótt var kallað á viðbragðsaðila,” segir Ingunn og er augljóslega þakklát.

Þannig hafi tveir kollegar hennar bundið um handlegg hennar og fót, og síðan lyft útlimunum upp til að draga úr blæðingu. Það hafi bjargað miklu.

Sextugsafmælinu fagnað í Oslóarháskóla

Gátu ekki ímyndað sér að einhver myndi lifa slíkt af

Aðkoma viðbragðsaðila var óhugnanleg og hafa samstarfsfélagar Ingunnar tjáð henni að eftir hafa séð verksummerki árásarinnar þá hafi þau ekki getað ímyndað sér að hún myndi lifa hildarleikinn af. Í huga Ingunnar er það alveg ljóst að það var henni til lífs að hún fundaði ekki ein með árásarmanninum. Aðstoð samstarfsmanna á ögurstundu gerði það að verkum að hún rétt komst undan.

Þegar lögreglu bar að hafði æðið runnið af hnífamanninum og var hann handtekinn mótþróalaust.

Ingunn var flutt með hraði á Ullevål-sjúkrahúsið en hún var með meðvitund allan tímann þar til hún var svæfð til að undirgangast aðgerð. „Þegar verið var að flytja mig á sjúkrahúsið á börum voru lögreglumennirnir strax komnir og báðu um leyfi til að taka myndir af áverkunum vegna rannsóknar málsins. Ég man að mér þótti það alveg súrealískt en datt ekki í hug að mótmæla því. Maður gerir bara það sem þarf.”

Læknar sjúkrahússins höfðu áhyggjur af því að garnir hefðu farið í sundur og því mátti Ingunn ekki borða vott né þurrt fyrstu klukkutímana „Það yrði svo mikil sýkingarhætta ef það hefði gerst. Ég man eftir mjög skrítinni tilfinningu þegar læknir stakk fingri sínum, íklæddur gúmmíhanska, inn í stungusárið til að reyna að meta skaðann. Svo voru vangaveltur um speglun eða uppskurð en að endingu var ég skorin upp.”

Ingunn segir að dagarnir á norska sjúkrahúsinu hafi verið afar erfiðir. Tvo fyrstu dagana gat hún vart sofið enda uppfull af adrenalíni. Þá var stöðug umferð af lögregluþjónum og læknum við sjúkrabeð hennar auk þess sem fulltrúar öryggisnefndar háskólans vildu fara ítarlega yfir málið enda blasir við að að atburðurinn hræðilegi getur haft víðtæk áhrif á störf háskólakennara í Noregi í náinni framtíð.

Þegar adrenalínið dvínaði hafi hún vart getað haldið augunum opnum af þreytu og nokkru síðar hafi hellst yfir hana erfiðar tilfinningar þar sem hún hafi ekki getað haldið aftur af tárunum.

„Ég fékk sálfræðiaðstoð á spítalanum og var þakklát fyrir hana. Sá aðili ræddi rólega við mig en fór ekkert ofan í atburðarásina. Sagði nóg komið af því eftir allar yfirheyrslurnar og mér leið betur eftir þá hjálp,” segir Ingunn.

Ingunn í sjúkrarúmi eftir árásina.

Þá hafi verið greinilegt að ástandið á heilbrigðiskerfinu í Noregi er ekki ósvipað og hérlendis. „Maður fann að það var mannekla og starfsfólkið, sem var þó ótrúlega hlýlegt og faglegt, var á hlaupum,” segir Ingunn. Þá hafi hún haft mjög gaman af einum hjúkrunarfræðingi en sú var svo áhugasöm um hagi Ingunnar, í ljósi þess að um stórt fréttamál var að ræða, að hún drakk morgunkaffið sitt með sjúklingnum frekar en kollegum sínum.

Ingunn var í stöðugum flutningum milli sjúkraherbergja og dvaldi alls í sex sjúkrastofum þessa tíu daga sem hún var á norska sjúkrahúsinu. Stundum í eins manns herbergi og stundum í fjögurra manna herbergi. „Það var ekkert skemmtilegt fyrir þá sem deildu með mér herbergi enda stöðugur gestagangur hjá mér þar sem verið var að fara yfir málið.” Segir hún að ástæðan fyrir þessu hafi þó verið vegna innlagnar sóttvarnarsjúklinga og það hafi eðlilega verið í forgangi.

Eins og gefur að skilja reyndi dvölin á Ullevål-sjúkrahúsinu mikið á og því ekki að undra að Ingunn nýtti fyrsta mögulega tækifæri til að forða sér heim í skjól til Íslands. Fjölskyldumeðlimir hennar aðstoðuðu hana við ferðalagið. „Ég var alveg ósjálfbjarga og hefði aldrei komist sjálf,” segir hún og brosir.

Ber engan kala til árásarmannsins

Undanfarnar vikur hefur Ingunn því verið að jafna sig af árásinni á Íslandi og virðist vera að tækla þessa erfiðu lífsreynslu með aðdáunarverðum hætti. Aðspurð um það segist hún þó taka einn dag í einu.

„Þetta er mikill rússíbani að ganga í gegnum og þó að mér líði vel í dag þá er ég meðvituð um að það getur komið bakslag hvenær sem er og ýmsar tilfinningar sprottið fram,” segir hún.

Þá kemur það blaðamanni nokkuð í opna skjöldu að reiði virðist ekki vera að finna hjá Ingunni. „Nei, það er svo merkilegt að hingað til hef ég ekki fundið til reiði í garð árásarmannsins. Ekki nokkra. Það kom eiginlega sjálfri mér á óvart”.

Í kjölfar árásarinnar hafi henni borist skilaboð frá tveimur kunningjum sem höfðu líka orðið fyrir ofbeldisglæpum, þeiboðið Ingunni að ræða málin ef hún þyrfti og tjáð henni að svipaðar tilfinningar hefðu bærst með þeim. „Mér þótti vænt um að heyra það, þá vissi ég að ég væri ekki skrýtin, að minnsta kosti hvað þetta varðar,” segir hún kímin.

Ingunni var mjög misboðið vegna rasískra athugasemda við fréttir af árásinni

Hún bætir við að það sé ekki í hennar verkahring að sjúkdómsgreina nemandann en ljóst sé að hann þurfi á hjálp að halda og hún vonist til þess að hann fái alla þá aðstoð sem þörf sé á.

Þá vonist hún innilega til þess að árásin verði ekki til þess að gripið verði til of harkalegra aðgerða til að tryggja öryggi kennara. „Ef maður horfir raunsætt á þennan atburð þá er ljóst að það er nánast tölfræðilega útilokað að hann eigi sér stað. Það væri óskynsamlegt að að grípa til of íþyngjandi aðgerða þó að það sé mikilvægt að draga lærdóm af þessu,” segir Ingunn. Hún megi ekki til þess að hugsa að nemendur verði látnir undirgangast vopnaleit né nokkuð slíkt. „Háskóli er ekki lengur háskóli ef fólk getur ekki talað saman nema í gegnum glervegg eða eftir vopnaleit.“

Í Noregi, líkt og á Íslandi og víðar, hafa hnífsstunguárásir verið að færast í vöxt. Telur Ingunn að fyrsta skrefið til að stemma stigu við því sé að banna hnífaburð alfarið og fólk verði sektað ef það verður uppvíst að því að ganga með slík vopn á sér.

Hneyksluð á rasistum í athugasemdakerfum fjölmiðla

Það sem olli Ingunni og fjölskyldu hennar þó mestu hugarangri á sjúkrabeðinu voru athugasemdakerfi fjölmiðla. Þar ráku þau augun í fjölmargar ósmekklegar færslur frá fólki sem þekkti ekki neitt til hennar né málsins.

„Það var eiginlega alveg rosalegt að fylgjast með því. Þarna voru einstaklingar að velta fyrir sér þjóðerni árásarmannsins og hvaða trúar hann væri. Það var verulega ógeðfellt að sjá fólk fá hreinlega útrás fyrir rasisma sinn í tengslum við mál sem það vissi ekkert um,” segir Ingunn.

Henni hafi blöskrað svo að hún hafði samband við tvo fjölmiðla til að biðja þá um að fylgjast með athugasemdunum og þá hafi sonur hennar gjörsamlega fengið nóg á einum tímapunkti og svarað einum rasistanum. „Það var mjög gott svar og kollegar mínir í Noregi voru svo ánægðir með það að það var þýtt yfir á norsku og vakin athygli á því í skólanum,” segir Ingunn.

Hún segist ekki hafa orðið vör við jafnmikla umræðu um þetta málefni úti í Noregi og segir það umhugsunarefni.

En hvað varðar ógeðfelldar vangaveltur um þjóðerni árásarmannsins og trú segir Ingunn: „Það var Norðmaður sem réðst á mig,” og leggur þunga áherslu á orð sín.

Íhugar að fá sér húðflúr

Varðandi framhaldið þá segist Ingunn taka einn dag í einu og hún sé ekki farin að leggja drög að endurkomu sinni til Noregs. Þá séu réttarhöldin yfir árásarmanninum, sem óhjákvæmilega eru yfirvofandi, ekki eitthvað sem hún leiði hugann að. Árásarmaðurinn, sem er á þrítugsaldri,  hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að ódæðið átti sér stað og hefur hann verið ákærður fyrir tilraun til manndrápst og að hafa valdið  stórfelldu líkamstjóni. Hann neitar sök varðandi manndrápstilraunina en hefur játað á sig stórfellt líkamstjón.

Blessunarlega eru meiri líkur en minni að Ingunn nái fullum bata eftir árásina ef sár hennar ná að gróa rétt. Það sé kraftaverki líkast en örin muni þó minna hana á þessa erfiðu lífsreynslu.

„Ég verð með sérstaklega ljótt ör á fætinum og núna er ég að velta vöngum yfir því að skreyta yfir það með húðflúri. Ég get ekki sagt að ég hafi verið líkleg til þess að fá mér húðflúr fyrir nokkrum vikum,” segir Ingunn og brosir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg