fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Vilja að Pálmar víki vegna meintrar þátttöku í ólögmætu samráði

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 21. september 2023 17:39

Samskip Mynd: Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fulltrúaráð launamanna Birtu lífeyrissjóðs hefur sent frá sér ályktun þar sem skorað er á Pálmar Óla Magnússon formann stjórnar sjóðsins að stíga til hliðar á meðan rannsókn stendur yfir á meintu ólögmætu samráði Samskipa og Eimskips.

Í ályktuninni segir að gerðar séu verulegar athugasemdir við setu Pálmars Óla í stjórn Birtu lífeyrissjóðs, á meðan hann hafi réttarstöðu sakbornings og í ljósi birtingu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um brot Samskipa gegn banni við ólögmætu samráði. Pálmar Óli var framkvæmdastjóri millilandasviðs Samskipa á þeim tíma sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nær til.

Með ályktunni tekur Fulltrúaráðið undir með Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR sem hefur kallað eftir því að Pálmar Óli víki sem og Björgvin Jón Bjarnason formaður stjórnar Lífeyrissjóðsins Gildi. Björgvin starfaði einnig sem stjórnandi hjá Samskipum og hefur eins og Pálmar verið sakaður um þátttöku í hinu meinta samráði.

Sjá einnig: Kallar eftir því að tveir af höfuðpaurum samráðsmálsins víki til hliðar úr stjórnarformannsembættum tveggja lífeyrissjóða

Í lok ályktunarinnar skorar Fulltrúaráð launamanna Birtu lífeyrissjóðs á Pálmar Óla Magnússon að stíga til hliðar á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Ástæða þess sé sú að fulltrúaráðið meti svo að Pálmar Óli uppfylli ekki lengur skilyrði greinar 5.3 samþykkta Birtu lífeyrissjóðs um gott orðspor.

Uppfært kl 18:00

Pálmar Óli Magnússon hefur sent DV yfirlýsingu  þar sem hann færir rök fyrir því af hverju hann telur ekki forsendur fyrir því að hann víki úr stjórn Birtu lífeyrissjóðs. Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:

Í tilefni af ályktun Fulltrúaráðs launamanna Birtu Lífeyrissjóðs vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Ég tók fyrst sæti í stjórn Birtu lífeyrissjóðs á árfundi sjóðsins í maí 2018 til tveggja ára eftir tilnefningu frá Samtökum atvinnulífsins. Við þá skipan fór ég í gegnum hæfismat Fjármálaeftirlitsins (FME) eins og skylt er um alla stjórnarmenn í lífeyrissjóðum landsins. Síðan 2018 hef ég í tvígang hlotið endurkjör til stjórnarsetu í sjóðnum til tveggja ára í senn, þ.e. á ársfundi sjóðsins í apríl 2020 og í apríl 2022. Hæfi mitt til stjórnarsetu samkvæmt gildandi lögum, reglum og samþykktum Birtu lífeyrissjóðs hefur ekki breyst síðan ég var fyrst kjörin til stjórnarsetu í sjóðnum.

Tilefni ályktunar fulltrúaráðsins er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem beinist gegn Samskipum, fyrrum vinnuveitanda mínum, frá því í lok ágúst síðastliðinn. Þar er meintum samkeppnisbrotum lýst mjög einhliða og rangar ályktanir dregnar í veigamiklum atriðum.

Lögmaður fyrirtækisins hefur tilkynnt í fjölmiðlum að þessi málatilbúnaður verði kærður til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum dómstóla til úrlausnar. Ég treysti því ferli og óttast ekki þá niðurstöðu sem þar verður leidd fram. Þetta er það ferli sem lýðræðis- og réttarríkið Ísland hefur mótað og þegnar landsins búa við og leggja traust sitt á.

Varðandi kæru Samkeppniseftirlitsins til héraðssaksóknara á hendur mér og fleiri einstaklingum, sem störfuðu hjá félögunum og voru til rannsóknar í ofangreindu máli, þá hefur kæran verið til meðferðar hjá embættinu síðan í mars 2014, eða í tæp tíu ár, án þess að gefnar hafi verið út ákærur í málinu. Umræddan tíma hefur héraðssaksóknari haft öll gögn undir höndum. Ekkert í niðurstöðum Samkeppniseftirlitsins frá lok ágúst gefur tilefni til að ætla að ákæra verði gefin út enda engin haldbær gögn sem sýna fram á saknæma háttsemi heldur einungis tilgátur, kenningar og fullyrðingar sem eiga sér enga stoð í gögnum málsins.

Ég tek fram að ég hef kynnt mér málatilbúnað Samkeppniseftirlitsins og tel ljóst að sú mynd sem þar er dregin upp af starfsemi Samskipa og störfum mínum og annarra starfsmanna félagsins er ekki í neinu samræmi við raunveruleg atvik málsins. Sýnt hefur verið fram á það með skýrum og ítarlegum andsvörum til Samkeppniseftirlitsins, sem studd eru gögnum til staðfestingar. Ég trúi því að hið sanna og rétta muni koma fram við meðferð málsins sem fram undan er.

Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt með kjöri í stjórn Birtu og hef lagt mig fram um að endurgjalda það með því að starfa af heilindum, brennandi áhuga og metnaði fyrir sjóðsfélaga. Á öllu þessu tímabili hefur fyrrgreint mál Samkeppniseftirlitsins enn ekki verið leitt til lykta. Þá hefur héraðssaksóknari verið með öll gögn málsins til fjölda ára og grundvöllur málsins ekkert breyst frá árinu 2014.

Samviska mín og tiltrú á réttarkerfið okkar segir mér að skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem ég var kjörinn til á ársfundi sjóðsins í apríl 2022. Ég hyggst því sinna stjórnarstörfum mínum fyrir Birtu lífeyrissjóð áfram af heilindum, brennandi áhuga og metnaði fyrir hönd sjóðsins okkar.

Pálmar Óli Magnússon

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi