Jóhannes Sturlaugsson, títt nefndur urriðahvíslarinn, drap 22 eldislaxa í tveimur ám á Vestfjörðum. Hann náði nærri tvöfalt fleiri löxum en norsku froskmennirnir þrír náðu í vikunni.
„Sjókvíaeldisskrímslin yfirtóku Fífustaðadalsá þetta árið,“ segir Jóhannes í færslu á Facebook síðu rannsóknar og ráðgjafafyrirtækisins Laxfiska. Þetta sé níunda árið í röð sem hann vakti ástandið á laxi og sjóbirtingi á hrygningartíma í Arnarfirði.
„Sjókvíaeldislaxarnir sem ég drap í þessari ferð voru 22 og spurningin núna er sú hve margir sjókvíaeldislaxar munu bíða mín í þessum ám þegar ég kíki aftur í árnar seinna í haust,“ segir hann.
Eldislaxar í veiðiám hafa mikið verið til umfjöllunar í sumar. En almennt er gert ráð fyrir að slysasleppingar úr sjókvíaeldi séu 0,8 laxar á hvert tonn.
„Í Fífustaðadalsá var ástandið óhugnanlegt svo ekki sé meira sagt, því sjókvíaeldislaxarnir 21 að tölu voru meirihluti hrygningarlaxanna í ánni alla leið upp í fjallshlíðar. Í nágrannaánni Selárdalsá náðist sjókvíaeldislax nú í fyrsta sinn þau 9 ár sem vöktunin hefur staðið sem segir sína sögu af því ófremdarástandi sem nú ríkir hérlendis vegna sjókvíaeldis á laxi,“ segir Jóhannes, sem er fiskifræðingur að mennt.
Sá fjöldi sem hann fann í Arnarfirði sé til marks um að slysasleppingar séu sífellt að aukast og fiskarnir gangi til hrygningar í íslenskum ám. Þá séu hrygningarlaxar villta íslenska stofnsins óvenju fáir þetta haustið, „þegar sjókvíaeldisskrímslin synda í stríðum straumum í þær til hrygningar.“
Í Fífustaðaá hafi megnið af sjókvíalaxinum verið í efri hluta árinnar, þar með talið uppi í vatnslitlum upptakakvíslum í fjallshlíðum þar til förin hafi verið tálmuð af ófiskgengum fossum.
Vert er að nefna að þrír norskir froskmenn hafa verið að skutla eldislaxa á Vestfjörðum undanfarið, sem koma úr sjókvíaeldinu í Patreksfirði. Morgunblaðið greindi frá því að þriðjudag að þeir hefðu náð 12 löxum í Ísafjarðará.
Einnig hafi verið fyrirhugað að skutla lax í Langadalsá og fleiri ám á Vestfjörðum. Eldisfiskar hafi verið að finnast í mörgum ám, þar á meðal Miðfjarðará, Víðidalsá og Laxá í Dölum.