fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Jeremy Corbyn situr fyrir svörum í Reykjavík

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 20. september 2023 12:19

Jeremy Corbyn 2018/Wikimedia-Kevin Walsh

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, mun flytja erindi klukkan 12 á hádegi laugardaginn 23. september næstkomandi í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Það er Sósíalistaflokkur Íslands sem stendur fyrir viðburðinum. Í kynningu á Facebook-síðu flokksins segir að erindið sé hluti af fundaröð Ögmundar Jónassonar (fyrrum ráðherra og þingmaður Vinstri-grænna-innsk. fréttamans) Til róttækrar skoðunar. Á fundinum muni Corbyn færa rök fyrir því hvers vegna þörf sé á sósíalisma. Eftir erindið muni Corbyn svara fyrirspurnum úr sal.

Gunnar Smári Egilsson, einn helsti forystumaður Sósíalistaflokksins segir um viðburðinn á Facebook-síðu sinni:

„Ég man ekki hvenær stjórnmálamaður af þessu kalíberi hélt síðast tölu á Íslandi, mætti á opinn fund til að ræða pólitík.“

Jeremy Corbyn hefur löngum verið meðal þeirra flokksmanna Verkamannaflokksins sem hafa hallað sér hvað lengst til vinstri. Hann hefur setið á breska þinginu fyrir flokkinn frá 1983.

Umdeildur flokksleiðtogi

Hann tók við sem flokksleiðtogi árið 2015 í kjölfar talsverðrar vinstri sveiflu í flokknum. Tíð hans sem leiðtogi var hins vegar nokkuð stormasöm. Meðlimum í flokknum fjölgaði fyrst eftir að hann tók við og hann barðist fyrir því að færa stefnu flokksins í sósíalískari átt. Lítil eining um forystu hans var hins vegar innan þingflokksins. Hópur þingmanna knúði fram nýja leiðtogakosningu í flokknum 2016 en Corbyn var þá endurkjörinn. Flokkurinn jók fylgi sitt í þingkosningunum 2017, undir forystu Corbyn, en var þó enn í stjórnarandstöðu. Fylgið fór aftur niður á við í kosningunum árið 2019.

Meðal þess sem Corbyn var einna helst gagnrýndur fyrir á meðan hann var leiðtogi Verkamannaflokksins var að hann hefði ekki tekið gyðingahatur í flokknum nægilega föstum tökum. Skýrslur um þessi mál sýndu hins vegar fram á að reglur og verkferlar flokksins varðandi hatursorðræðu og rasisma voru ófullnægjandi þegar Corbyn tók við en voru styrkt undir hans forystu. Þó þótti sannað að bæði stuðningsmenn og andstæðingar Corbyn innan flokksins hefðu nýtt gyðingahatur sem vopn í deilum sín á milli.

Jafnréttis- og mannréttindanefnd Bretlands (e. Equality and Human Rights Commission) sem er óháð komst hins vegar að þeirri niðurstöðu árið 2020 að í leiðtogatíð Corbyn hefðu komið upp tilfelli innan flokksins sem sneru að ólögmætri mismunun og áreitni.

Keir Starmer tók við sem leiðtogi flokksins vorið 2020 eftir að Corbyn hafði lýst því yfir að hann myndi ekki leiða flokkinn í næstu þingkosningum í Bretlandi. Corbyn var vísað úr flokknum í október 2020 eftir að hafa fullyrt opinberlega að af pólitískum ástæðum hefði verið ýkt stórlega hversu mikið gyðingahatur væri innan flokksins. Hann fékk inngöngu í flokkinn á ný mánuði síðar en var áminntur formlega. Forysta flokksins neitaði hins vegar að veita honum aðild að þingflokknum að nýju og hefur hann setið á þingi sem óháður þingmaður síðan.

Í mars á þessu ári hafnaði landsnefnd Verkamannaflokkins því að samþykkja að Corbyn yrði frambjóðandi flokksins í næstu þingkosningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu