Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, segir í færslu á Facebook-síðu sinni í nótt að „kona klædd í múslimabúning“ hafi reynt að stela töskunni sinni í Leifsstöð þegar hann kom í flugi til landsins.
„Það skyggði dálitið á ánægjulega heimkomu, að reynt var að ræna töskunni minni í Fríhöfninni. Kona klædd í múslimabúning (með slæðu og í síðum kufli) tók hana, á meðan ég var að versla,“ skrifar Hannes Hólmsteinn í færslunni.
Segir hann það hafa tekið talsvert á endurheimta töskuna og að aðrir farþegar hafi ekki lyft vettlingi til að aðstoða hann þegar hann fór fram á að hringt yrði á lögregluna.
„Allir horfðu á mig eins og ég væri eitthvað skrýtinn. Þessi kona hefur síðan eflaust spígsporað inn í landið eins og ekkert væri. Óskaplega hlýtur þetta fólk að hlæja í laumi yfir Íslendingum,“ skrifar Hannes Hólmsteinn í færslunni.
Hann hafði þó ekki fyrr birt færsluna en ung kona, sem kvaðst einnig hafa verið úti í Leifsstöð í nótt, tók hann til bæna. „Þú ert ekki að segja rétt frá sögunni. Þú öskraðir á tvær litlar stelpur að þær væru að stela töskunni, (þær rugluðust á tösku eins og gerist oft uppi fríhöfn), svo kom mamma þeirra og þú öskraðir á hana. Þú endaðir svo á því að öskra á greyjið stelpurnar að það ætti ekki að hleypa þeim inní landið. Þær sögðu við þig að þær væru fæddar á Íslandi og með íslenskan ríkisborgararétt, svo fórstu og öskraðir á alla starfsmenn og tuðaðir í starfsmönnum að það ætti ekki að hleypa svona fólki inn í landið,“ segir unga konan.
Telur hún að stelpurnar sem Hannes Hólmsteinn hafi þjófkennt hafi verið börn í kringum fjórtán og sex ára aldurinn og að prófessorinn hafi orðið sér til minnkunnar.
„Það var ekki vesen að fá töskuna til baka þær gáfu þér hana strax. Ástæðan afhverju allir horfðu svona á þig er útaf því þú ert Íslendingum til skammar. ömurlegt að fólk eins og þú skemmi fyrir öðrum,“ skrifar unga konan.
Óhætt er að fullyrða að færsla prófessorsins hafi fallið í grýttan jarðveg enda hafa fjölmargir sagt honum til syndanna í þræðinu. „Þú er alveg ótrúlega ljótt eintak Hannes. Þetta er augljóslega lygasaga. Mikið ofboðslega hlýtur að vera einmannaleg tilveran hjá þér,“ segir meðal annars Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International.
Hannes verst þó keikur og skilur ekkert í gagnrýnendum sínum en hann segir að um handfarangurstösku hafi verið að ræða . „Það er ótrúlegt að sjá viðbrögðin hjá sumum hér við ummælum mínum. Þetta fólk tók tösku, sem ég var með í handfarangri. Það var sjálft með frekar lítinn handfarangur með sér, sá ég. Auðvitað vissi þetta fólk, að þetta var taskan mín. Það hefði verið annað mál, ef um hefði verið að ræða töskur af rennibrautinni. En útlendingar geta ekkert rangt gert að dómi sumra, sérstaklega ef þeir eru í múslimabúningi. Ég er hinn seki, að sætta mig ekki við, að töskunni minni væri stolið!“ skrifar prófessorinn.