Í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International segir að deildin muni í dag 15. september ýta úr vör til styrktar verkefnis Amnesty International á Ameríkusvæðinu.
Tilkynningin hljóðar svo:
„Verkefnið styður við níu stúlkur í Amazon-skóginum í Ekvador sem berjast fyrir hreinu, heilnæmu og sjálfbæru umhverfi þar sem þær búa. Stuðningurinn felst m.a. í frekari rannsóknum á áhrif gasbruna á heilsu fólks og umhverfið. Einnig verður lögð áhersla á vitundarvakningu og herferðir, innan lands sem utan, til að þrýsta á stjórnvöld í Ekvador. Öll framlög renna óskert til þessa verkefnis.
Ljósmyndir af börnum með grímur fyrir vit sér munu vera sýnilegar víða hérlendis sem hluti af herferð Íslandsdeildar samtakanna. Myndirnar vísa í skaðleg áhrif mengunar á heilsu fólks vegna olíuframleiðslu, sérstaklega barna. Tilgangurinn er að vekja upp spurningar um hvað okkur finnist ásættanlegt fyrir umhverfið og börn um heim allan. Hægt er að styðja baráttu stúlknanna á vefsíðu Íslandsdeildarinnar.
Gasbruni er notaður við olíuvinnslu til að brenna jarðgas sem er aukaafurð vinnslunnar. Í Amazon-skóginum í Ekvador eru 447 gasbrunar sem brenna allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þeir hafa brunnið áratugum saman á Amazon-svæðinu með tilheyrandi skaða á umhverfinu og heilsu fólks. Þeim fylgir einnig mikil losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur loftslagsbreytingum.
Níu stúlkur á Amazon-svæðinu, úr samfélagi frumbyggja í Ekvador, höfðuðu mál gegn stjórnvöldum í Ekvador. Þær kröfðust lögbanns á gasbruna í nágrenni þeirra á grundvelli rannsóknar sem sýndi aukna tíðni krabbameins. Stúlkurnar fengu lögfræðiaðstoð frá UDAPT, samtökum fólks og samfélaga sem glíma við afleiðingar olíumengunar á svæðinu. Héraðsdómstóll úrskurðaði þeim í hag á grundvelli þess að réttur þeirra til heilnæms umhverfis væri virtur að vettugi. Í krafti auðæfa og áhrifa hlutaðeigandi aðila hefur úrskurðinum ekki verið framfylgt og því fóru stúlkurnar með málið fyrir stjórnlagadómstól í Ekvador þar sem málið er yfirstandandi. Þrátt fyrir mögulega jákvæða niðurstöðu þar er ekki gefið að henni verði framfylgt nema til komi utanaðkomandi þrýstingur og stuðningur. Slíkt er ofureflið sem frumbyggjar eiga við að etja á svæðinu.
Víða í Rómönsku-Ameríku getur verið hættulegt að berjast fyrir umhverfinu gegn loftslagsvánni og á það við um Ekvador. Meðlimir samtakanna UDAPT hafa meðal annars þurft að þola hótanir og líkamsárásir vegna málshöfðunar á hendur olíuiðnaðinum þar í landi. Herferð Íslandsdeildarinnar sýnir því ekki myndir af stúlkunum sjálfum í öryggisskyni.
Frumbyggjasamfélög eru meðal jaðarsettra hópa sem bera litla sem enga ábyrgð á loftslagsbreytingum en finna oft einna mest fyrir áhrifum þeirra. Mikilvægt er að leyfa röddum þessara hópa að heyrast í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Amnesty International á Ameríkusvæðinu stendur því fyrir stóru verkefni næstu árin sem styður við baráttu stúlknanna níu á Amazon-svæðinu, í samstarfi við UDAPT.
Framlag einstaklinga til umrædds verkefnis Amnesty International skiptir máli til að vekja athygli á réttindum frumbyggja í Ekvador til heilnæms umhverfis og tryggja að rödd þeirra heyrist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Framlög frá Íslandi renna óskert í verkefnið.“