Starfsskýrsla Hjálparstarfs kirkjunnar er komin út og gildir hún fyrir starfsárið 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Í skýrslunni kemur fram að umsækjendum um neyðaraðstoð Hjálparstarfsins á Íslandi hafi fjölgað um 12,1 prósent frá sama tímabili 2021-2022, úr 2.175 í 2.438. Aðstoðarbeiðnum fjölgaði um níu prósent, úr 3.936 í 4.290.
Í skýrslunni segir að þróun efnahagsmála undanfarin misseri komi hvað verst við þann hóp sem til Hjálparstarfsins leitar að öllu jöfnu. Ógnarhár húsnæðiskostnaður sé viðvarandi vandamál auk þess sem aukinn eldsneytiskostnaður og dýrari matarkarfa hitti þennan hóp sérstaklega illa fyrir.
Jafnframt kemur fram að neyðaraðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar felist fyrst og fremst í því að fólk sem býr við kröpp kjör fái inneignarkort fyrir matvöru en einnig sé veitt aðstoð vegna kaupa á lyfjum og foreldrar barna og unglinga fái aðstoð m.a. til að fjármagna tómstundaiðkun barnanna og kostnað sem fellur til í upphafi skólaárs svo börnin verði síður útsett fyrir félagslegri einangrun sökum efnaleysis.
Þegar kemur að tekjum þeirra sem leituðu til Hjálparstarfsins á starfsárinu 2022-23 voru flestir eða 33,7 prósent sem höfðu framfærslu af örorkulífeyri samanborið við 31,9 prósent á starfsárinu 2021-22. Af umsækjendum voru 23,1 prósent sem reiddu sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að 13,5 prósent umsækjenda sem til Hjálparstarfsins leituðu höfðu atvinnu, sem þó hafi ekki dugað til framfærslu, en hlutfall þessa hóps meðal umsækjenda fer hækkandi. Starfsárið 2021-22 var þessi hópur 10,8 prósent af umsækjendum.
Í skýrslunni segir enn fremur að flestir sem leituðu til Hjálparstarfsins á starfsárinu 2022-23 eða 68,5 prósent leituðu aðstoðar í aðeins eitt skipti. Flestir, eða 32,3 prósent voru á aldrinum 30-39 ára, konur voru 70,6 prósent umsækjenda og flestir eða 47 prósent voru einstæðir lögheimilisforeldrar. Af þeim sem leituðu til Hjálparstarfsins bjuggu 58,8 prósent í leiguíbúð eða leiguherbergi á almennum markaði og 62,2 prósent bjuggu á höfuðborgarsvæðinu. Alls voru 21 prósent umsækjenda sem bjuggu í félagslegu leiguhúsnæði en 8,6 prósent bjuggu í eigin húsnæði.
Af þeim sem leituðu aðstoðar voru 61 prósent með íslenskt ríkisfang en starfsárið 2021-22 var þetta hlutfall 65 prósent.
Í skýrslunni er dregin eftirfarandi ályktun um fólk sem sótti um neyðaraðstoð Hjálparstarfs Kirkjunnar á Íslandi á starfsárinu 2022-23:
„Sú ályktun var dregin í starfsskýrslu starfsársins 2021 – 2022 að svo virtist sem að einstæðir lögheimilisforeldrar og barnafjölskyldur á aldrinum 30 – 39 ára, fólk sem hefur framfærslu af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, fólk sem býr í leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og fólk sem er með íslenskt jafnt sem erlent ríkisfang sé verst statt í íslensku samfélagi. Niðurstöður nýliðins starfsárs breyta þessari mynd ekki svo séð verði.“
Líklega má bæta fólki sem hefur framfærslu af örorkulífeyri í þennan hóp í ljósi þess að þegar kemur að tekjum er hæst hlutfall umsækjenda sem treystir á slíkan lífeyri.
Það ber einnig að taka fram að í heildartölu umsækjenda er ekki tekinn með fjöldi barna á bak við hverja umsókn. Hjálparstarf kirkjunnar miðar við að á bak við hverja umsókn séu að meðaltali 2,7 einstaklingar. Það myndi þýða t.d. að hvert einstætt foreldri sem sækir um eigi að meðaltali 1-2 börn.
Fréttamaður DV ræddi við Vilborgu Oddsdóttur, félagsráðgjafa, sem hefur umsjón með innanlandsstarfi Hjálparstarfs kirkjunnar og byrjaði á að spyrja hana hvað henni fyndist sjálfri um að umsækjendum hafi fjölgað:
„Það er alltaf erfitt þegar fjölgar. Það sýnir hvernig samfélagsgerð okkar er. Ég er búinn að vera hérna í 20 ár og það fjölgar og fækkar og fjölgar og fækkar. Það fylgir því hvað erfitt er að lifa í samfélaginu. Við erum afsprengi þess. Það er bara þannig. Þegar er eins og núna, húsaleigan er dýr og matur er dýr þá koma fleiri. Þegar er atvinnuleysi koma fleiri en það er öðruvísi núna það er nóg atvinna en þá vegur hitt á móti. Það er alltaf erfitt að vita að það er fleira og fleira fólk sem ekki getur látið enda ná saman.“
Þegar kemur að þeirri staðreynd að hlutfall þeirra sem eru með atvinnu og sækja um neyðaraðstoð hefur vaxið og hvað það kann að gefa til kynna um ástandið í íslensku samfélagi segir Vilborg:
„Þessi hópur er líka sá hópur sem er á leigumarkaðnum og er að leigja sem dýrast. Þegar launin duga ekki fyrir leigu og því að lifa þá er eitthvað að í samfélaginu. Við vitum það alveg að það er leigumarkaðurinn sem er algjörlega ruglaður hérna. Fólk er að vinna og það dugar ekki fyrir brýnustu nauðsynjum sem eru hús og matur.“
Fréttamaður DV spurði Vilborgu hvernig hljóðið væri almennt í því fólki sem sækir um neyðaraðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar:
„Það er mjög misjafnt myndi ég segja. Sumir eru bjartsýnir og aðrir ekki. Ef við tökum Íslendingana þá er hljóðið miklu þyngra í þeim almennt en þeir sem eru innflytjendur á Íslandi það er betra hljóð í þeim. Þeir taka þessu kannski sem tímabili sem gengur yfir en Íslendingar eru búnir að ganga í gegnum svo ofboðslega margar hæðir og lægðir í efnahagslífinu og fólk getur þetta orðið ekki lengur. Þú getur ekki gert nein plön um eitt eða neitt. Fólk verður bara þreytt á þessu.“
Fréttamaður spurði Vilborgu, í ljósi reynslu hennar og hversu lengi hún hefur starfað við innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar, um það hvernig hópur þeirra sem hefur sótt um neyðaraðstoð á undanförnum árum horfði við henni:
„Það sem ég sé að það eins og kerfin okkar eru byggð upp eins og til dæmis örorkukerfið að þá situr fólk ( fólk á örorkulífeyri, innsk. fréttamanns) svolítið fast. Það hefur ekki neinn möguleika á að fara út á vinnumarkaðinn út af skerðingum. Það er fast og hefur búið við fátækt í fjölda ára. Það er fast þarna inni. Svo eru hópar eins og til dæmis þeir sem leita til okkar sem innflytjendur og eru á framfærslu hjá félagsþjónustunni og koma ekki oft af því þeir fara síðan út á vinnumarkaðinn.“
„Þetta eru svona tveir til þrír hópar. Einn sem er búinn að vera fastur ár eftir ár og sér enga breytingu. Fólkinu er ekki mætt með réttlátari kerfisbreytingu eins og í kringum örorkubætur. Hann er bara fastur þarna. Svo er það annar hópur sem er búinn að vera lengi á lágum launum og er fastur í dýru húsnæði. Svo er það þessi þriðji hópur þeir sem koma nýir til Íslands, eru á framfæri félagsþjónustunnar en fá svo vinnu og við sjáum þá ekki meira.“
„Sem betur fer er hópur sem stoppar alltaf stutt við því annars værum við að kaffærast af fólki. Það er fólkið á örorkubótum sem stoppar langmest við hjá okkur því það hefur ekki möguleika til tekjuaukningar og er bara fast eins og kerfið er í dag. Örorkukerfið í dag er ekki að bjóða upp á neina endurmenntun, námskeið eða fræðslu og það er erfitt að fara út á vinnumarkaðinn án þess að hafa liggur við minni tekjur. Hvatinn er ekki mikill. Þetta er kerfi sem er bara lokað og læst og það er eins og það séu engar breytingar þarna. Ég er búinn að sitja í nokkrum hópum og hver einasta ríkisstjórn er að reyna að gera eitthvað en það verður ekki mikið úr.“
„Sem betur fer eru líka hópar sem leita til okkar í skamman tíma sem fara og mennta sig og fara að vinna í góðum stöðum. Sem betur fer, líka bara upp á geðheilsu okkar sem erum að vinna hérna“, sagði Vilborg Oddsdóttir að lokum og bætti við að það sem helst þurfi að breytast í íslensku samfélagi til að fækka umsækjendum um neyðaraðstoð sé örorkubótakerfið og húsnæðismarkaðurinn:
„Fólk þarf að geta lifað af laununum sínum og ekki þurfa að borga meira en 30 prósent af tekjum sínum í húsnæðiskostnað. Þá mundi fækka hjá okkur heilmikið.“