Askur Bárðdal Laufeyjarson, sem kom að tíu hundum sínum dauðum í sumar, hefur fengið niðurstöður krufningar. „Orsök dauða óþekkt“ var svarið sem hann fékk.
Það var laugardaginn 8. júlí sem Askur, sem starfar sem hundaþjálfari og býr á bænum Engihlíð í Norðurdal í Breiðdal, brá sér á bæjarhátíð í fimm klukkutíma. Tíu hundar, af tegundunum Husky og Border Collie, voru úti í gerði á meðan. Þegar Askur sneri til baka fann hann alla hundana dauða í gerðinu.
Tveir hundar voru kældir og sendir í krufningu á Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands að Keldum og sýni voru send erlendis til eiturefnaprófunar. Þá var málið einnig kært til Lögreglunnar á Austurlandi.
Nú liggur fyrir að krufning gat ekki sýnt fram á ástæðu hundadauðans.
„Þessi óvissa er ömurleg og sú staðreynd að ég geti ekkert gert til að minnka óvissuna enn verri,“ segir Askur í færslu á samfélagsmiðlum og segir frá því hvað hundarnir væru sennilega að gera í dag.
„Í dag er bjart og fallegt veður en kalt, sem sagt fullkomið veður fyrir langan túr með hundunum. Væri allt eins og það á að sér að vera væri ég með Lupo, Lunatic, Alpha, Nome of Lúsí örugglega með mér að njóta veðursins í 30 km hringnum „okkar“. Katla og Anett væru að þjálfa fyrir mót, Nagli og Navi að byrja í þjálfun og Lágfóta komin á heimili, en hún átti að hitta mögulega verðandi eigendur daginn eftir að hún dó,“ segir hann.
Í viðtali við Vísi í sumar sagðist Askur hafa fengið mismunandi svör frá dýralæknum um mögulega ástæðu dauða hundanna. Sumir nefndu eitrun sem hugsanlega ástæðu en aðrir rafmagn eða hugsanlega hitakast. Hann sagðist þó hafa gengið úr skugga um að hundarnir hefðu nægt vatn þennan dag og skugga.
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, sagði að málið ætti sér engin fordæmi á Íslandi.
Askur segist hafa verið spurður hver næstu skref séu og að hann hafi fá svör við því. Hann hafi oft verið nálægt því að gefast upp. Hann langi hins vegar aftur í Husky hunda og er búinn að kaupa sér öryggismyndavél til þess að geta vaktað þá allan sólarhringinn.
„Stærsti gallinn er að ég þori því ekki, ég veit ekki hvað gerðist svo hvernig get ég spornað við því að það gerist aftur?“ segir Askur í færslunni. Þangað til mun hann einbeita sér að sportinu með öðrum tegundum, einkum Border Collie.