fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Fréttir

Kristrún segir ekkert nýtt í fjárlagafrumvarpinu – „Það er alltaf verið að telja sömu íbúðirnar“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 12. september 2023 16:00

Kristrún segir ríkisstjórnina sjálfa hafa skapað það ástand sem hér er í ríkisfjármálum og með óbreyttri stefnu lagist ekkert.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ekkert nýtt boðað í fjárlagafrumvarpinu til að takast á við verðbólguna og róa vinnumarkaðinn fyrir fyrirsjáanlega erfiðan kjaravetur. Sífellt sé verið að kynna sömu aðgerðirnar sem hafi vatnast út eftir því sem verðbólgan étur upp krónurnar.

„Við óttumst að við séum að sigla inn í erfiðan kjaravetur án þess að það komi neinar kjarabætur frá ríkisstjórninni til að róa vinnumarkaðinn,“ segir Kristrún eftir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra tilkynnti fjárlagafrumvarp komandi árs í morgun.

„Verðbólgan er enn þá há og það er ekkert nýtt að koma inn. Ég skil ekki að hvernig gamlar tillögur, sem eru tilkynntar í þriðja eða fjórða sinn, eiga að vekja von hjá fólki í landinu um breytta stöðu,“ segir hún.

Staðan sé algerlega óbreytt frá því í vor þegar fjármálaáætlun var kynnt. Fjármálaáætlun sem hafi meira að segja verið gagnrýnd fyrir að innihalda ekki mikið af nýjum tillögum til að takast á við verðbólguna.

Ekkert fyrir vinnumarkaðinn

Kristrún segir lykilspurninguna vera hvað ríkisstjórnin ætli sér að gera á þessum tímapunkti til að bregðast við aðstæðunum í efnahagslífinu, háum verðbólgutölum og vaxtahækkunum sem hafa fylgt. Það virðist vera sem svo að stjórnin ætli að halda sínu striki óháð þessum aðstæðum.

„Það mátti heyra það á fjármálaráðherra í morgun að það væri ekkert svigrúm til að mæta vinnumarkaðinum með frekari aðgerðum,“ segir Kristrún.

Mikið hafi verið talað um úrræði eins og að stórbæta barnabótakerfið. Það yrði mjög gott fyrir fjölskyldurnar í landinu.

„Staðreyndin er hins vegar sú að þessi viðbót hefur verið stórlega ofmetin,“ segir Kristrún. „Verðbólgan á undanförnum árum hefur verið svo há að þær upphæðir sem stóð til að leggja í þetta hafa mjög lítil áhrif á almenn heimili í landinu.“

Það sama sé uppi á teningnum hvað varðar húsnæðismálin. Byggja eigi þúsund íbúðir á næsta ári og þúsund á þarnæsta með stuðningi ríkisins.

„Við styðjum þetta auðvitað en þetta er búið að vera á planinu í mörg ár. Það er alltaf verið að telja sömu íbúðirnar,“ segir Kristrún.

Skortir tekjuöflun og pólitískar aðgerðir

Þrátt fyrir 46 milljarða króna halla lýsti Bjarni afkomunni sem miklum viðsnúningi. Grunnreksturinn væri kominn í plús. Kristrún segir vissulega jákvætt að afkoma ríkissjóðs batni en segir að staðan sé viðkvæm. Hún hafi áhyggjur af jafnvægi efnahagsmála og velferðarmála.

Tilkynnt hefur verið að opinberum störfum verði fækkað um á þriðja hundrað. Kristrún nefnir að launaliðurinn sé stór hluti af útgjöldum ríkissjóðs, líkt og hjá fyrirtækjum landsins. Þessar sparnaðaraðgerðir sem Bjarni hafi tilkynnt í efstu lögum stjórnsýslunnar og eigi að snúa að launakostnaði einstakra starfsmanna geri hins vegar ósköp lítið til að koma í veg fyrir miklar almennar launahækkanir.

Bjarni kynnti fjárlagafrumvarpið í morgun. Mynd/Golli

„Við hefðum vilja sjá skilning á því að ef það er farið að sækja tekjur þar sem þenslan raunverulega er, eins og með því að hækka fjármagnstekjuskatt, með því að klóra aftur til baka hluta af bankaskattinum, með því að fara í sanngjarna gjaldtöku á útgerðina,“ segir Kristrún. „Þá gætum við fjármagnað húsnæðisbæturnar, vaxtabæturnar og barnabæturnar. Alla þessa þætti sem gætu haldið vinnumarkaðinum rólegum í haust en það virðist ekki standa til.“

Kristrún segir að Samfylkingin vilji vera lausnamiðuð í sinni gagnrýni. Ekki sé hægt að breyta stefnu stjórnvalda, hvorki í efnahagsmálum né velferðarmálum, en flokkurinn hefur komið fram með tillögur til þess að bæta stöðuna. Kjarapakka og verkefnalista til að fjármagna öflugra barnabótakerfi, hækkun vaxtabóta og til að auka svigrúm til að byggja húsnæði. Það muni flokkurinn halda áfram að gera.

Stóra málið sé, eins og áður var nefnt, að það vanti viðbótartekjuöflun og það skorti pólitískar aðgerðir.

Áfram vantar hjúkrunarrými

Spurð út í einstaka liðið fjárlagafrumvarpsins nefnir Kristrún helst framlög til heilbrigðismála, sem Samfylkingin hafi lagt sérstaka áherslu á að undanförnu.

„Við sjáum að það hefur gengið illa að fjölga hjúkrunarrýmum í landinu. Það er áfram staðan í þessum fjárlögum,“ segir Kristrún. „Þetta er oft afsakað með því að það eigi að koma aukinn stuðningur í heimahjúkrun eða endurhæfingarrýmum en það er ekkert í þessum fjárlögum sem bendir til þess að það eigi að bæta upp þessa erfiðu stöðu á hjúkrunarheimilum með því að styrkja aðra hluta kerfisins.“

Þetta sé alvarlegt fyrir fjölskyldur landsins sem reiða sig á umönnun fyrir eldra fólk. Þetta skiptir líka miklu máli fyrir fjármál heilbrigðiskerfisins, því fólk sem fær ekki hjúkrunarrými þarf oft að fara fyrr inn á spítala en ella. „Það liggur á göngum spítalans þar sem leguplássið er miklu dýrara en annars staðar í kerfinu,“ segir Kristrún.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot

„Gríðarmikil“ og óvenjuleg skjálftahrina hafin í Bárðarbungu – Minnir á kvikuinnskot
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar

„Við erum ekki í stríði – en það er heldur ekki friður“ segir forsætisráðherra Svíþjóðar
Fréttir
Í gær

Verslunarstjóramálið: Menn sem höfðu samræði við konuna báru vitni fyrir dómi – Sigurjón kom nakinn til dyra

Verslunarstjóramálið: Menn sem höfðu samræði við konuna báru vitni fyrir dómi – Sigurjón kom nakinn til dyra
Fréttir
Í gær

Óánægja með svifasein viðbrögð Vegagerðarinnar við holu sem olli miklu tjóni – „Dekkið er handónýtt og ég veit ekki hvort það er meira tjón“

Óánægja með svifasein viðbrögð Vegagerðarinnar við holu sem olli miklu tjóni – „Dekkið er handónýtt og ég veit ekki hvort það er meira tjón“