Lögreglan í Vestmannaeyjum greindi frá því í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag að mikil rigning hafi sett svip sinn á dagskrá Þjóðhátíðar í gærkvöldi og nótt. Færra fólk var í brekkunni á hátíðarsvæðinu en á föstudagskvöldið, en flest voru þó vel búin.
Í færslunni kemur fram að lögreglan hafði í nógu að snúast og voru flest verkefni tengd ölvun. Fangageymslur voru fullar á tímabili, en gestum lögreglu fór fækkandi með morgninum.
Fjórtán fíkniefnamál komu upp og í einu máli var aðili grunaður um sölu, en í fórum hans fundust yfir 40 grömm af kókaíni, sem voru haldlögð.
Í færslunni segir að eitt „kynferðismál“ hafi verið tilkynnt lögreglu og rannsókn þess sé komin vel á veg.
Tvær minniháttar líkamsárásir voru tilkynntar og einn aðili stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna.
Undir morgun stytti upp í Eyjum og þegar færslan var birt var þurrt en skýjað.