fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Tommi þekkir alkóhólisma af eigin raun – „Ég upplifi það stundum sjálfur eftir 43 ár „Var þetta svo slæmt?“ ég er ekki viss“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 5. ágúst 2023 13:30

Tómas Tómasson Mynd: Skjáskot YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas Tómasson þingmaður Flokks fólksins hefur marga fjöruna sopið, frá því að skrapa saman 500 krónum yfir í að leigja David Beckham og fjölskyldu veitingastaðinn sinn, frá alkóhólisma og vonleysi, yfir í fjölskyldu og hamingju.

Tommi rak Festi í Grindavík árin 1974 til 1977. Að loknu námi í Bandaríkjunum í hótel- og veitingarekstri stofnaði hann Tommaborgara 14. mars 1981 og urðu staðirnir alls 26 um allt land. Þremur árum seinna hætti hann rekstrinum, en rak meðal annars Hard Rock Café og Hótel Borg, auk þess sem hann stofnaði Kaffibrennsluna árið 1996 og sá um rekstur til ársins 2002. 14. mars 2004 opnaði Tommi nýjan hamborgarastað sem heitir Hamborgarabúlla Tómasar að Geirsgötu 1 í Reykjavík.

Tommi keypti sér íbúð við strendur Miami en flutti aftur eftir þrjár vikur til Íslands því hann var skotinn í konu. Hann hatar óréttlæti og þolir ekki þegar fólk leggur í stæðið hans. Tommi fer yfir æviferilinn í viðtali við Götustráka í nýjasta þætti þeirra.

Skilningsleysi yfirvalda þegar kemur að fíknivanda

„Þetta er bara skilningsleysi yfirvalda. Hjartasjúkdómar og krabbamein eru stærstu dauðsvaldar á Íslandi, jafnvel í vestrænu samfélagi. Númer þrjú er alkóhólismi en sá sem deyr úr alkóhólisma er alltaf skilgreindur eins og hann deyi úr öðru. Þú færð hjartaáfall af því þú ert búinn að fara svo illa með líkamann að hann þolir ekki meira af drykkju. Barn sem keyrt er á og deyr deyr vegna alkóhólisma mannsins sem er að keyra. Svona má lengi telja. Fyrir utan það að alkóhólismi er fyrirlitinn af mörgum. Þetta er sjúkdómur. Menn drekka af því þeir ráða ekki við sig. Þeir sem ekki skilja og jafnvel þeir sem skilja sem minnst eru sjálfir alkóhólistar,“ segir Tommi.

„Það kostar 10 milljónir að fara í hjartaaðgerð og það eru 400 manns sem fara í hana á ári. Auðvitað ætti alkóhólisminn að fá hlutfallslega jafnmikið greitt frá Tryggingastofnun eins og hjartasjúkdómar og krabbamein en við fáum bara brot af því sem við ættum að fá. Það fara 2300 manns í gegnum Vog á ári, en það er borgað fyrir 1650 þeirra af ríkinu. Það þarf bara að redda pening fyrir hinum, þetta er svo ósanngjarnt, þetta er bara skilningsleysi.“

Segir Tommi Krísuvík og Hlaðgerðarkot í dag bestu meðferðarstöðvarnar, þeir sem eru illa á sig komnir og fari þangað nái góðum árangri, en þessir staðir eru fjársveltir. „Þetta er skilningsleysi hjá þeim sem taka ákvarðanirnar. Á Alþingi í dag eru kannski 5-6 einstaklingar sem þekkja þetta af eigin raun. Dropinn holar steininn, það býr sú von í brjósti mér að það verði hægt að leiðrétta þetta og auka framlög.“

Tommi segist hafa hitt fólk í fangelsum og kannski ekki margir þar sem reyni að verða edrú. „Þar eru strákar öðru hvoru megin við tvítugt sem lentu bara í einhverju veseni, allt í einu eru þeir komnir í fangelsi, í glæpaskólann að læra. Þessir strákar áttu bara að fara í meðferð og fá hjálp. Ég hitti einn um daginn sem fékk sex ára dóm fyrir að keyra fullur, hann var tekinn nokkrum sinnum fullur. Hann sagðist eiga eftir að fá þrjú ár í viðbót. Þessi náungi á ekki að vera í fangelsi árum saman, heldur fá hjálp að laga forritið.“

Fólk deyr á löngum biðlista

Segir Bjarki sjálfur frá því að hann hafi fengið símtal frá Vogi fyrir tveimur árum eftir að hafa beðið í 11 mánuði á biðlista. Sjálfur fór hann í fjögurra mánaða meðferð á Hlaðgerðarkot og segist eiga þeim líf sitt að launa.

„Sá sem sér um Krýsuvík segir mér að þar séu 100 manns á biðlista og nú þegar eru tveir látnir sem voru á biðlistanum. Ef biðlistinn væri styttri þá hefðu þessir menn jafnvel ekki dáið,“ segir Tommi sem segir vandann ekki vera að fara heldur aukast.

„Aukningin í kókaínneyslu er gífurleg. Félagar mínir á þingi, Píratar, vilja afglæpavæða sem mér finnst fáránlegt. Með því að afglæpavæða er svo auðvelt að selja, þú getur sannfært mann að prófa af því þetta er ekki lengur ólöglegt. Þeir sem prófa einu sinni þeir verða oft húkt, þá segja þeir að það verði ekki allir húkt sem prófa. 10% af þeim sem prófa verða húkt, þannig að ef hópurinn stækkar sem prófar þá hljóta þessi 10% að stækka líka. Það þarf að tefla þessa skák til enda. Vandamálið er engan veginn að fara, þú getur séð það ef þú horfir á bíómyndir, það er alltaf verið að fara í flymtingum með kókaínneyslu og grasreykingar, þetta er allt saman orðið bara hipp og kúl. Ef þú ferð á uppistand í Ameríku þá eru allir meira og minna að gera grín að neyslunni.“

Segir Tommi að hans sjónarmið sé að langsterkasta vopnið séu góðar forvarnir og það þurfi að finna út úr því hvernig hægt sé að byrja að rækta hugarfar hjá fólki sem gerir það að verkum að það átti sig á að fara ekki í neyslu.

„Því fyrr sem þú byrjar að reykja því fyrr koðnar líkaminn niður, því hann ræður ekki við grasreykingar. Það er skárra að byrja 25 ára en 15 ára, því þessi litli óþroskaði líkami ræður ekki við þetta.“

Segir hann forvarnir taka langan tíma og oft erfitt að meta árangurinn.

„Það er með ólíkindum að 90% séu meðvitaðir um hvað Vogur er, hvað það er að fara í meðferð, AA, 12 spora kerfið. Ef þú ferð út í heim og það er alltaf vitnað í Portúgal. Ef þú ferð sem dæmi til Lissabon í Portúgal þar sem búa 3 milljónir, þar eru 10 AA fundir á viku. Í Reykjavík þar sem eru 200 þúsund manns þar eru 30 AA fundir á dag. Það er verið að benda á Portúgal sem fyrirmynd um að afglæpavæða, fólk þar veit ekkert hvað meðferðarstöð er, það veit ekkert um þessi mál. Við á Íslandi erum velsett að það þekkja allir til. Það er nánast sagt í flymtingum „Þú verður að fara á Vog.“

Tommi nefnir að einstaklingar verði að komast í meðferð þegar þeir eru búnir að ákveða að fara og tilbúnir að takast á við vandann. „Við vitum að það er gluggi þegar þú ert tilbúinn að fara og þá verður þú að fara. Ef þú færð ekki að fara, þá hugsarðu að þetta sé ekki svo slæmt. Ég upplifi það stundum sjálfur eftir 43 ár að stundum held ég „Var þetta svo slæmt?“, ég er ekki viss.“

Um Götustráka

Félagarnir Bjarki Viðarson og Aron Mímir Gylfason standa bak við hlaðvarpsþáttinn Götustrákar sem hýstur er á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Bjarki og Aron, sem betur eru þekktir undir Twitter-nöfnum sínum, Jeppakall 69 doperman Rakki og Ronni Turbo Gonni, lifðu og hrærðust í undirheimunum höfuðborgarinnar um árabil en hafa snúið blaðinu við og feta nú beinu brautina. Ætlun þeirra með hlaðvarpinu er að gefa hlustendum innsýn inn í þennan miskunnarlausa heim og ekki síður ráð um hvernig foreldrar geta passað upp á börnin sín varðandi stafrænar hættur.

Horfa má á þáttinn í heild sinni á brotkast.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi