Fyrirtækið Dagar sem sérhæfir sig m.a. í ræstingum og fasteignaumsjón, hefur fyrst fyrirtækja hafið notkun gervigreindar í íslenskukennslu fyrir starfsfólk sitt.
Í tilkynningu kemur fram að þetta sé gert í samstarfi við fyrirtækið Akademias og byggi einkum á Bara tala appinu, stafrænum íslenskukennara sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Bara tala býður upp á grunn-námskeið í íslenskukennslu og einnig vinnusértækt nám. Í tilkynningunni segir að með þessu vilji Dagar aðstoða starfsmenn af erlendum uppruna við að aðlagast íslensku samfélagi og auka vellíðan þeirra á vinnustað. Samstarf Daga og Akademias um Bara Tala geri starfsmönnum fyrirtækisins kleift að bæta við tungumálakunnáttu sína á þægilegan hátt, óháð tíma og staðsetningu.
Í tilkynningunni er haft eftir Pálmari Óla Magnússyni, forstjóra Daga:
„Dagar er tæplega 900 manna vinnustaður þar sem ríflega 80% starfsfólks hafa annað móðurmál en íslensku. Við vitum hversu mikils virði það er fyrir starfsfólk okkar að hafa grunnþekkingu á íslensku og höfum því í gegnum tíðina haldið uppi íslenskunámskeiðum með góðum árangri. Nú tökum við þetta skrefinu lengra og með innleiðingu Bara tala erum við að gefa fleiri starfsmönnum okkar tækifæri á að læra íslensku á einfaldan og aðgengilegan hátt.“
Pálmar segir það sérstaklega ánægjulegt að fá að taka þátt í þróun lausnar sem þessarar og það að fá að hafa áhrif á námsefnið sé dýrmætt fyrir þjónustuaðila eins og Daga.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akademias, segir í tilkynningunni um Bara tala og samstarfið við Daga:
„Bara tala er lausn sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni og býður upp á stafræna leikjavædda íslenskukennslu sem eykur orðaforða, hlustunarfærni og þjálfar notendur í að tala íslensku. Þannig geta þeir æft sig í að bera fram orð og setningar í framburðarþjálfun sem skilar því að framfarir verða hraðar og árangursríkar. Okkar markmið er að gera íslenskunám ánægjulegt og aðgengilegt og við erum himinlifandi með samstarf okkar við Daga en mikill fjölda annarra íslenskra vinnustaða eru nú að hefja innleiðingu á þessari byltingakenndu, stafrænu íslenskukennslu.“