Stefán Eysteinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri og fyrrum útvarpsmaður á FM957, varð bráðkvaddur á heimili sínu sunnudaginn 16. júlí, 51 árs að aldri. Útför hans fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju mánudaginn 31. júlí.
Stefán lætur eftir sig eiginkonuna Maríu Lovísu Árnadóttur og tvö börn þeirra, Töru Guðrúnu, 19 ára, og Sigurð Leó, 16 ára.
Sjá einnig: Ásgeir Kolbeins minnist Stefáns vinar síns – Hvetur fólk til að styrkja börn hans
Stefán var vinamargur og er hans sárt saknað af fjölskyldu hans og öðrum ástvinum. Vinir fjölskyldunnar hafa stofnað hvatninga- og menntasjóð í minningu Stefáns fyrir börn hans.
„Elsku Stebbi okkar hafði stóra drauma fyrir Töru og Sigga sinn og vildi að þau myndu ganga menntaveginn áhyggjulaus og upplifa eigin drauma um nám í útlöndum eins og hann og Maja gerðu hér áður í Arizona. Okkur ástvinum langar að hjálpa þeim og hvetja í þvi sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Því höfum ákveðið að stofna hvatninga- og menntasjóð í minningu Stebba fyrir Töru og Sigga. Með fyrirfram þakklæti Kærleiksher Mæju og Stebba,“
segir í lýsingu sjóðsins, sem leikkonan Nína Dögg Filippusdóttir birti á Facebook.
„Við eigum svo sannarlega einstaka vini og sannan Kærleiksher. Elska ykkur svo heitt,“ segir María í athugasemd hjá Nínu.
Þeir sem vilja styrkja börn Stefáns geta lagt inn á neðangreindan reikning, sem er á nafni og kennitölu Maríu Lovísu eftirlifandi eiginkonu hans:
Reikningur: 0301-26 – 013313
Kennitala: 180474-5019
Stefán og María stunduðu nám í kringum aldamótin í Arizona í Bandaríkjunum. Í framhaldi stofnuðu þau þar heimili og rekstur og fæddust börn þeirra í Bandaríkjunum.
Stefán var útvarpsmaður á FM957 um langt árabil og stýrði þar hinum vinsæla þætti Rólegt og rómantískt. Árið 2021 stofnaði hann ásamt öðrum fyrirtækið GynaMEDICA sem sérhæfir sig í heilsuþjónustu fyrir konur. Áður var hann fjármálastjóri Wow air, CCP Games og starfaði sem endurskoðandi í Bandaríkjunum fyrir fyrirtæki og stofnanir.