Lögregluyfirvöld í Las Vegas eru sögð rannsaka nú erfðaefni úr raðmorðingjanum Rex Heuermann til þess að meta hvort að þau passi við sýni sem tekin voru af morðvettvangi í borginni árið 2003 en óhugnanleg líkindi eru sögð verða með morðinu og þeim morðum sem Heuermann er grunaður um í heimaborg sinni.
Búist er við niðurstöðum úr rannsókninni eftir 6-8 vikur samkvæmt frétt New York Post um málið en lögregluyfirvöld hafi ekki enn staðfest þá fullyrðingu.
Heuermann vandi komur sínar til syndaborgarinnar en hann átti meðal annars eignarhluta í íbúð þar ásamt öðrum.
Lík hinnar sautján ára gömlu móður, Victoriu Camara, fannst við malarveg skammt fyrir utan Las Vegas, að morgni þess 11. ágúst 2003 en nokkrar vikur tók að bera kennsl á líkið.
Hin unga móðir framfleytti sér sem kynlífsverkakona til að sjá fyrir hinni eins árs gömlu dóttur sinni, Savanah. Í viðtali við News12 segist Savanah, sem nú er 21 árs gömul, vonast eftir að senn dragi til tíðinda.
„Ég vona bara að við fáum svörin sem við höfum verið að leita eftir. Það myndi raunverulega skipta miklu máli.“
Aðstandendur Victoriu hafa barist fyrir því í tvo áratugi að málið verði rannsakað nánar en þau telja að fordómar lögreglumanna fyrir fólki í kynlífsiðnaðinum sé ástæða þess að málið hafi hlotið litla athygli.
Eins og fram hefur komið í fyrri umfjöllunum DV þá hefur Heuermann verið kærður fyrir að hafa myrt þrjár vændiskonur árið 2010. Talið er að hann sé hinn alræmdi Gilgo-strandar raðmorðingi. Talið er að Heuermann verði einnig ákærður fyrir fjórða morðið, en talið er að Gilgo-strandar raðmorðinginn hafi myrt allt að 10 konur.