Um sjöleytið í kvöld var lögreglan kölluð til vegna slagsmála sem brutust út á bílaplaninu við ÁTVR á Dalvegi í Kópavogi. Vísir greindi fyrst frá málinu en samkvæmt frétt miðilsins var sjúkrabíll einnig kallaður á vettvang og voru tveir aðilar færðir í fangaklefa vegna málsins.
Sá sem varð fyrir árásinni var Enok Vatnar Jónsson, kærasti Birgittu Lífar Björnsdóttur, eins vinsælasta áhrifavalds landsins. Hafa sjónarvottar tjáð DV að barefli hafi meðal annars farið á loft en á meðan barsmíðunum stóð hélt Birgitta Líf sig til hliðar og fylgdist skelfd með. Í vikunni var greint frá því að parið ætti von á sínu fyrsta barni saman.
Birgitta Líf setti tilkynningu inn á Instagram-síðu sína nú fyrir stundu þar sem hún þakkaði kveðjurnar sem parinu hefur borist og greindi frá því að allir væru heilir á húfi á hennar heimili. Fullyrti hún að um líkamsárás hafi verið að ræða og þakkaði hún lögreglunni fyrir skjót viðbrögð og sagði að gerendurnir væru nú í höndum laganna varða.
Uppfært: Í frétt Vísis nú fyrir stundu kemur fram að samkvæmt heimildum miðilsins hafi árásarmennirnir verið með hníf, piparúða og hamar á sér og Enok og Birgitta hafi ekki þekkt deili á þeim.