Yfirvöld í Líbanon hafa bannað sýningar kvikmyndarinnar Barbie í landinu. Kvikmyndin er sögð halda samkynhneigð á lofti og ganga þannig gegn gildum landsins.
Mohammad Morta menningarmálaráðherra bannaði myndina en hafði áður frestað frumsýningu hennar fram til loka ágúst. Ráðherrann sagði Barbie brjóta í bága við siðferðisleg og trúarleg gildi líbansks samfélags. Hann vildi einnig meina að kvikmyndin ýti undir kynferðislegt óeðli og trans-hneigð.
Kynferðislegt óeðli er orðalag sem oft notað um samkynhneigð í Mið-Austurlöndum.
Þetta bann við sýningum á Barbie í Líbanon kemur í kjölfar harðnandi orðræðu í garð hinsegin fólks af hálfu sumra stjórnmálamanna og embættismanna í Líbanon.
Hassan Nasrallh leiðtogi Hezbollah, sem er hreyfing íslamista og mjög áhrifamikil í Líbanon, sagði í ræðu í síðasta mánuði að sambönd fólks af sama kyni væru ógn við landið.
Hann hafði nokkrum dögum áður hótað hinsegin fólki í Líbanon í myndbandi. Jafnframt hvatti hann til þess að hinsegin fólk yrði kallað niðrandi orðum og að því yrði refsað.
Eftir flutning þessarar ræðu hefur tilkynningum frá hinsegin fólki um áreitni og hótanir, í gegnum internetið, farið fjölgandi.
Líbanon var áður talið eitt frjálslyndasta landið í Mið-Austurlöndum en yfirvöld í landinu hafa í auknum mæli komið í veg fyrir viðburði á vegum hinsegin fólks.
Andúð á hinsegin fólki hefur farið vaxandi í fleiri arabaríkjum. Barbie var einnig bönnuð í Kuwait þar sem hún var sögð hvetja til óásættanlegrar hegðunar.
Í Írak hafa stjórnvöld bannað fjölmiðlum og netfyrirtækjum að nota orðin samkynhneigð og kyngervi (e. gender) og skipað þeim að nota þess í stað orðin kynferðislegt óeðli. Í landinu hafa regnbogafánar verið brenndir í mótmælum vegna Kóran-brenna í Noregi og Svíþjóð.
Það var CNN sem greindi frá.