fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Hæstaréttardómari lifir lúxuslífi í boði auðjöfra

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 10. ágúst 2023 16:00

Clarence Thomas mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

CNN greinir frá því og hefur eftir fjölmiðlinum Propublica að Clarence Thomas, dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna, hafi síðustu 30 ár, mest allan tímann sem hann hefur setið í embætti, þegið fjölda verðmætra gjafa frá auðugum vinum sínum. Meðal þess sem Thomas hefur fengið gefins eru fjölmargar ferðir með einkaþotum, miðar í lúxusstúkur á íþróttaviðburðum, gistingar á íburðarmiklum gististöðum og opinn aðgang að velli einkagolfklúbbs í Flórída.

Aldrei áður hefur farið eins víðtæk greining fram á því hvernig auðugir vinir Thomas hafa fjármagnað íburðarmikinn lífsstíl hans öll þau ár sem hann hefur átt sæti í Hæstarétti. Thomas er sagður margsinnis hafa látið hjá líða að greina frá gjöfunum með skriflegum hætti.

Áður hefur verið greint frá gjöfum milljarðamæringsins Harlan Crow til Thomas. Crow, sem hefur gefið háar upphæðir til Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, hefur m.a. boðið Thomas og eiginkonu hans í dýr ferðalög, greitt skólagjöld fyrir frænda dómarans og keypti einnig hús móður hans. Mest af þessum gjöfum gaf Thomas ekki upp. Hann sagði hins vegar ekkert óeðlilegt við að vinir fari í ferðalög saman.

Þessi nýjasta rannsókn á gjöfum til Clarence Thomas hefur hins vegar leitt í ljós að þrír aðrir milljarðamæringar, sem líkt og Crow hafa gefið Repúblikanaflokknum stórfé, hafa einnig verið stórtækir í gjöfum til hans. Thomas svaraði ekki spurningum Propublica.

Einn þessara þriggja milljarðamæringa, David Sokol, viðurkenndi að hafa boðið Thomas og eiginkonu hans í ferðalög en fullyrðir að á engum tímapunkti hafi þeir rætt mál sem voru fyrir Hæstarétti hverju sinni.

Sérfræðingar í meðferð dómsmála segja að skortur á gagnsæi varðandi sambönd við þessa milljarðamæringa stangist á við hvernig dómarar á lægri dómstigum í Bandaríkjunum hafa nálgast siðferðislegar skuldbindingar sínar.

Fordæmalaust umfang

Fleiri dómarar Hæstaréttar í Bandaríkjunum hafa verið sakaðir um að brjóta siðareglur þegar kemur að gjöfum en Thomas hefur gengið lengst af þeim öllum bæði hvað varðar umfang gjafa og hversu algengt hefur verið að gjafirnar hafi ekki verið gefnar upp.

Einn viðmælandi sagði umfang þeirra gjafa sem Clarence Thomas hefði ekki gefið upp væri fordæmalaust.

Þeim spurningum hefur einnig verið velt upp hvort að Thomas hafi mögulega brotið lög með því að gefa ekki upp gjafirnar með formlegum hætti. Talið er að honum hafi verið leyfilegt að greina ekki frá boðum á einkaheimili á milljarðamæringanna en hann hefði átt að gefa upp t.d. miðana á íþróttaviðburði sem honum voru gefnir.

Milljarðamæringarnir sem gáfu Thomas allar þessar gjafir áttu ekki beinna hagsmuna að gæta í málum sem hafa verið fyrir Hæstarétti. Framlög þeirra til Repúblikanaflokksins passa hins vegar vel við hægri sinnaðar skoðanir og lagatúlkun Thomas. Vinátta hans við þá virðist fyrst hafa byrjað eftir að hann tóki sæti í Hæstarétti í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar.

Óvíst er hvert verðmæti gjafanna er sem Thomas hefur þegið á þeim 30 árum sem hann hefur verið dómari við Hæstarétt en talið er að það nemi milljónum dollara.

Demókratar á Bandaríkjaþingi vilja herða siðareglur hæstaréttardómara. Sumir dómaranna níu hafa talið sig ekki bera skyldu til að fylgja sömu reglum um til að mynda uppljóstrun fjárhagslegra upplýsinga og dómarar á lægri dómstigum en segjast gera það að eigin frumkvæði. Þeir þurfa heldur ekki að fylgja sambærilegum reglum og kollegar sínir um mögulega hagsmunaárekstra.

Forseti Hæstaréttar, John Roberts, og fleiri dómarar við réttinn, auk Repúblikana á Bandaríkjaþingi, hafa sagt að dómararnir séu fullfærir um að passa upp á það sjálfir að þeir breyti siðferðislega rétt. Roberts hefur sagt að Hæstiréttur muni hugsanlega herða siðareglur fyrir dómara en nokkur andstaða mun vera við það meðal sumra annarra dómara við réttinn.

Thomas hefur þó ekki eingöngu notið velvildar auðugra manna sem hallir eru undir Repúblikana. Greint hefur verið frá því að árið 1999 hafi hann þegið 267.230 dollara lán (tæplega 35,2 milljónir íslenskra króna á gengi dagsins í dag) til að kaupa húsbíl. Lánveitandinn var Anthony Welters sem aflað hefur Demókrataflokknum hárra fjárhæða en eiginkona hans starfaði sem sendiherra í forsetatíð Barack Obama. Welters segir lánið hafa verið endurgreitt en neitar að veita nánari upplýsingar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Íslensk kona í haldi lögreglu á Tenerife eftir blóðuga árás – Gekk í skrokk á tengdamóður sinni og mágkonu

Íslensk kona í haldi lögreglu á Tenerife eftir blóðuga árás – Gekk í skrokk á tengdamóður sinni og mágkonu
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Stefán ekki sannfærður um lífsseiga kenningu og nefnir athyglisverð dæmi

Stefán ekki sannfærður um lífsseiga kenningu og nefnir athyglisverð dæmi
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Guðbrandur sér fyrir sér ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata

Guðbrandur sér fyrir sér ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Sérfræðingur segir að nýtt ofurvopn Pútíns neyði Vesturlönd til að taka afgerandi ákvörðun

Sérfræðingur segir að nýtt ofurvopn Pútíns neyði Vesturlönd til að taka afgerandi ákvörðun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sif um kosningarnar – „Kysi ég Pírata gæti atkvæði mitt farið til spillis. En ég gæti þó allavega lifað með sjálfri mér.“

Sif um kosningarnar – „Kysi ég Pírata gæti atkvæði mitt farið til spillis. En ég gæti þó allavega lifað með sjálfri mér.“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill hefur efasemdir um skoðanakannanirnar – „Menn ættu að varast að draga of miklar ályktanir af þeim“

Egill hefur efasemdir um skoðanakannanirnar – „Menn ættu að varast að draga of miklar ályktanir af þeim“