Bjarki Viðarson og Aron Mímir Gylfason stjórnendur hlaðvarpsins Götustrákar segja farir sínar ekki sléttar í nýjasta þætti sínum. Í kynningarstiklu fyrir þáttinn segjast þeir hafa verið lagðir í einelti og mátt þola hótanir. Þeir nefna Þorstein V. Einarsson, kynjafræðing og stjórnanda hlaðvarpsins Karlmennskan, helst til sögunnar sem þann einstakling sem einna mest hafi lagt þá í einelti. Bjarki og Aron segja einnig að aðrir einstaklingar, sem líkar ekki það sem þeir hafi fram að færa í þætti sínum, hafi hótað þeim.
Bjarki og Aron, sem oft eru kallaðir einu nafni Götustrákar, hafa verið á öndverðu meiði við Þorstein þegar kemur að fyrirbrigðum eins og femínisma, karlmennsku og jafnrétti. Þorsteinn hefur haldið hefðbundnum feminískum gildum á lofti en Götustrákar hafa hallað sér meira að þeim sem andmæla femínisma og kalla hann öfgafullan.
Í kynningarstiklunni kalla Götustrákar Þorstein eineltissegg og segja hann hafa verið tekjuhæsta áfhrifavald landsins árið 2021 með 1,4 milljónir króna á mánuði. Það geri hann að tekjuhæsta öfgafemínista landsins og fólki finnist það skrítið af því að Þorsteinn sé karlkyns.
Þeir félagar hæðast svo að þeirri ákvörðun Þorsteins, sem hann tilkynnti opinberlega um, að yfirgefa samfélagsmiðilinn Twitter, eða X eins og hann heitir núna, og fara í staðinn á miðilinn Blue Sky sem stillt hefur verið upp til höfuðs X. Götustrákar segja Blue Sky einmitt vera forrit fyrir fólk sem ákveði að leggja alla í einelti sem séu ekki sammála skoðunum þess.
Götustrákar vitna í færslur Þorsteins en taka ekki nákvæmlega fram hvar hann á að hafa birt þær. Þeir segja að Þorsteinn hafi farið í vörn og gert árás enda sé hann stór og mikill íslenskur karlmaður. Að sögn Götustráka skrifaði Þorsteinn að þeir sem settu nafn sitt við drasl eins og þáttinn þeirra mættu „fokka sér.“ Þeir segja að Þorsteinn hafi fullyrt að þeir aðilar sem leggi nafn sitt við Götustráka séu að taka afstöðu með þeim þótt að viðkomandi kunni að halda öðru fram.
Þarna eru Götustrákar að vísa í ákvörðun fyrirtækisins Pizzan að hætta sem stuðningsaðili þáttarins og vilja þeir meina að það hafi ekki verið síst fyrir tilstuðlan Þorsteins. Þess ber þó að geta að Götustrákar eru hluti af efnisveitunni Brotkast en sú veita er sérstaklega kynnt sem óháð auglýsendum og sögð treysta alfarið á áskriftir.
Götustrákar segjast þó eiga hauka í horni, meðal annars í Facebook-hópnum Fyndir frændur. Þeir lásu nokkrar athugasemdir úr hópnum þar sem stuðningi er lýst yfir við þá. Í athugasemdunum er Þorsteinn meðal annars sakaður um forræðishyggju, að ganga alltof langt með skrifum sínum um Götustráka og að beita þá ofbeldi.
Götustrákar segja að Þorsteinn og hans fylgjendur verði alltaf á móti þeim. Þeir velta þeirri spurningu upp hvort það sé vegna þess að þeir eru með hreina sakaskrá eða af því þeir séu ekki að eltihrella kvenfólk. Mögulega geti það einnig verið vegna þess að þeir séu í sambandi með „heitum gellum“ sem þeir komi vel fram við. Á endanum geti þó aðeins „woke-herinn“ svarað því hver ástæðan er.
Þeir segjast hafa fengið hótanir um líkamsmeiðingar frá þessum „woke-her“ og nefna þar sérstaklega mann að nafni Finnbogi Karl en Bjarki segir að Finnbogi hafi hótað að rota hann. Götustrákar spyrja hvort þetta sé jafnrétti en segja að kærleikurinn vinni alltaf á endanum. Jafnvel þótt að Pizzan hafi ákveðið að slíta samstarfi við þá.