Í tilkynningu frá Búseta kemur fram að gengið hafi verið frá kaupum á 42 íbúðum við Tangabryggju í Reykjavík sem áður voru í eigu leigufélagsins Heimstaden.
Þá hafa framkvæmdastjórar félaganna tveggja undirritað viljayfirlýsingu um að Búseti kaupi yfir 90 íbúðir til viðbótar af Heimstaden.
Heimstaden vinnur nú að því að selja eignir úr eignasafni sínu og leitast eftir því að selja eignir til aðila sem leggja áherslu á húsnæðisöryggi og viðhafa langtímahugsun þegar kemur að samningum við leigjendur. Stefnt er að formlegri afhendingu eignanna 42 til Búseta fyrir árslok en um er að ræða nýlegar 2-4 herbergja íbúðir.
Íbúðirnar sem Búseti hefur nú keypt af Heimstaden eru við Tangabryggju 2, 4a og 4b en viljayfirlýsingin um frekari kaup Búseta nær til íbúða sem einnig eru á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt tilkynningunni hafði Egill Lúðvíksson þetta að segja um kaupsamninginn:
„Það er ánægjulegt að geta tryggt leigutökum okkar áframhaldandi húsnæðisöryggi hjá nýjum eiganda. Þetta eru íbúðir á mjög góðum og eftirsóttum stað á höfuðborgarsvæðinu. Búseti er rótgróinn aðili á húsnæðismarkaði og gildi félagsins fara vel saman við okkar. Ég trúi að leigutakar okkar verði ánægðir með þessi viðskipti.“
Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta segir:
„Markmið Búseta er að tryggja félagsmönnum sínum aðgengi að tryggu og góðu húsnæði á hagkvæmum kjörum. Það er með ánægju sem við bjóðum leigjendur Heimstaden velkomna til Búseta. Við höfum verið að auka við framboð íbúða á vegum Búseta, bæði í formi búseturétta og á vegum Leigufélags Búseta. Kaupin á íbúðum Heimstaden styrkja enn frekar framboð íbúða hjá okkur á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum geta boðið fjölbreytt húsnæði sem hentar ólíkum æviskeiðum fólks án þess að það þurfi að binda stórar fjárhæðir í húsnæði eða taka dýr lán.“