fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Ása Guðbjörg rýfur þögnina og greinir frá hörmulegri aðkomunni – „Börnin mín gráta sig í svefn“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 1. ágúst 2023 10:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ása Guðbjörg Ellerup, sem er skilin að borði og sæng frá Bandaríkjamanninum Rex Heuermann sem grunaður er um að vera Gilgo-strandar raðmorðinginn, hefur þurft að verjast ágangi fjölmiðla og forvitinna vegfarenda allt frá því að maður hennar var handtekinn þann 13. júlí. Hún fékk að snúa aftur á heimili sitt á Long Island á föstudaginn eftir að lögregla sneri þar öllu á hvolf og gróf í sundur bakgarðinn. Hún hefur þó ekki fengið nokkurt andrými þar sem hver blaðamaðurinn á eftir örðum freistar þess að ná viðtali af henni í hvert sinn sem hún stígur út af heimili sínu, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um vægð.

Nú hefur hún freistað þess að fá loks frið frá áganginum með því að veita viðtal, en hún ræddi við New York Post þar sem hún sagði lögreglu hafa rústað heimili hennar og barnanna af þvílíku offorsi að hún hefur ekki einu sinni rúm til að sofa í.

„Ég vaknaði upp um miðja nótt, skjálfandi af kvíða,“ sagði Ása Guðbjörg, en fáir geta sett sig í  hennar spor þessa stundina enda óhugsandi með öllu að komast að því að maki þinn til áratuga sé grunaður um jafn alvarleg brot og verðandi fyrrverandi eiginmaður Ásu.

Gráta sig í svefn og allt á hvolfi

„Börnin mín gráta sig í svefn. Ég meina, þú eru ekki börn lengur, þau eru fullorðið fólk en þau eru börnin mín og sonur minn er seinfær og hann grætur sit í svefn,“ sagði Ása sem á dóttur á þrítugsaldri með Rex og son úr fyrra hjónabandi sem er á fertugsaldri, en hann er með skertan þroska.

Dóttir Ásu, Victoria, hefur lýst ástandi sem svo að ekki sé lengur litið á fjölskylduna sem manneskjur. Aðspurð um hvers vegna dóttur hennar liði þannig svaraði Ása:

„Hún meinar hvað hefur verið gert við þau og að ekki sé litið á fjölskylduna sem manneskjur. Þau voru bara dýr í þeirra augum, það var komið fram við þau eins og dýr,“ sagði Ása í ljósi þess hvernig lögregla og rannsakendur hafi skilið við sit eftir umfangsmikla húsleitina en af myndum sem New York Post deildi má sjá að það er líkt og hvirfilbylur hafi gengið um eignina og jafnvel baðkarið fékk enga vægð og var sagaði í sundur. Ása tók fram að sumum gæti þótt eignin óíbúðahæf sem stendur, en „þetta er það eina sem ég hef. Við náðum í annan stól niður í kjallara og færðum upp svo ég og sonur minn getum setið og spjallað. Hann er viti sínu fjær og skilur ekki hvað er að gerast, og ég sem móðir hef engin svör fyrir hann. En ég sagði við hann að við séum þó saman og það sé það sem skipti öllu núna, að hann og ég séum hér saman og að við munum komast í gegnum þetta.“

Óíbúðarhæft eftir framgöngu lögreglu

Ása segir að lögreglan hafi ekkert gert til að ganga frá eftir sig, þeir hafi bara snúið öllu á hvolf og svo haldið sína leið. Þegar hún kom heim hafi hún varla geta komist inn fyrir hússins dyr fyrir drasli.

„Ég átti þrjá ketti, kattasandinum var hvolft og helt yfir allt. Myndum mínum var fleygt út um allt, sófinn minn var tættur í sundur. Ég veit ekki einu sinni ef hlutar af sófanum séu hérna ennþá.“

Á heimilinu hafi verið stór geymslukassi sem er fóðraður með svamp. Þennan svamp gat Ása tekið og útbúið sér eins konar dýnu til að liggja á. „Og bakgarðurinn minn, ég get ekki einu sinni útskýrt í hvaða standi hann er. Ég var með gróðurhús og fannst indælt að gróðursetja þar, þau rústuðu því, því var lyft upp og það fest svo hátt uppi, þú skilur, því var hent upp á fullt af öðru drasli. Þetta er 400 þúsund króna gróðurhús. “

Lögreglan hafði meira að segja skipt út lásum á útidyrum svo fjölskyldan varð að fá nýja lykla. Lögreglan hafi engu hlíft. Jafnvel spil sem dóttir Ásu á sem tilheyra vinsæla hlutverkaleiknum D&D voru skemmd, en sum þessara spila voru þó nokkurs virði. Að auki hafi gítar sonar hennar verið skemmdur. Fjölskyldan sé ekki enn búin að ná utan um allt tjónið.

Hafa fengið góðan stuðning

Lögmaður Ásu, Bob Macedonio, sagði í samtali við CNN að undanfarnar vikur hafi ríkt algjört upplausnarástand hjá fjölskyldunni. Það hafi því verið óþarfa áfall fyrir þau, ofan á allt, að koma að heimilinu í þessu ástandi. Gólfefni hafi verið rifið upp, sófar og dýnur fjarlægð, skúffur tæmdar og gífurlegt magn af drasli skilið eftir. Nú sé það sem fjölskyldan þurfi helst á að halda andrými og friður til að horfast í augu við aðstæður og takast á við áfallið. Þau hafi þó fengið mikinn og góðan stuðning frá samfélaginu, meðal annars frá aðstandendum þekktra raðmorðingja á borð við Happy Face morðingjann. Eins hefur verið greint frá því að nágrannar fjölskyldunnar hafi boðið fram stuðning í orði og verki, en meðal annars hefur Ása Guðbjörg fengið matarsendingar og mun nákominn aðili nú leita leiða til að hefja söfnun fyrir fjölskylduna.

„Það er búið að vera gífurlega yfirþyrmandi fyrir hana og börnin að reyna að púsla lífi sínu í fyrra horf, líkt og það var fyrir rúmum tveimur vikum. Ég veit ekki hvort þeim tekst nokkurn tímann að komast á þann stað, en með hverjum deginum gengur þó aðeins betur.“

Ása ræddi einnig við ABC fréttastofuna.

„Börnin mín hafa grátið sig í svefn og ég hef grátið mig í svefn líka. Í hvert sinn sem börnin fara í gegnum eitthvað, þau opna kassa, þá gráta þau. Allt hefur verið eyðilagt.“

Málið og ástandið sé sérstaklega erfitt syni hennar sem er seinfær, en hann sofi nú í stól á nóttunni. Lögmaður Ásu segir að nú sé það forgangsmál hjá fjölskyldunni að halda utan um hvert annað og vinna úr þessu áfalli. Hvað verði um Rex sé aukaatriði. Reiknað er með því að Rex verði færður fyrir dómara í dag. Sem stendur er hann ákærður um að hafa banað þremur ungum konum fyrir rúmum áratug síðan, en allar eru þær taldar hafa starfað við vændi. Eins er hann grunaður um að hafa banað fjórðu stúlkunni, en hefur þó ekki verið ákærður í því máli, enn sem komið er.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!