Þrír eru látnir eftir að flugvél brotlenti á Austurlandi fyrr í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi. Neyðarboð frá flugvélinni, sem var af gerðinni Cessna 172, barst viðbragðsaðilum um kl.17.01 og voru nær allar björgunarsveitir á Austurlandi kallaðar út í kjölfarið.
Það voru síðan aðilar um borð í flugvél Icelandair á leið til Egilsstaða sem komu auga á vélina kl. 19.01 og ferðaþjónustuþyrla staðfesti svo fundinn og fundarstað. Fannst vélin við Sauðahlíðar milli Hornbrynju og Hraungarða, þar sem hún hafði brotlent. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom síðan á staðinn skömmu síðar ásamt björgunarfólki og var þá öðrum björgunarsveitum snúið við.
Um borð voru flugmaður og tveir farþegar en fólkið var úrskurðað látið á vettvangi.
Lögreglan á Austurlandi fer með rannsókn málsins og rannsóknarnefnd samgönguslysa í samræmi við lög þar um. Rannsókn er á frumstigi og ekki hægt að gefa frekari upplýsingar að svo stöddu.