„Það er alltaf ágætt að fá afsökunarbeiðni en miklu betra væri þó skýr stefna varðandi framtíð skemmtiferðaskipaþjónustu á Íslandi! Við vitum það öll að landið okkar er EINSTAKT og mjög dýrmætt. Afhverju í ósköpunum förum við ekki með það eins og dýrgrip sem við viljum vernda?!“
segir Perla Magnúsdóttir, leiðsögumaður og fyrirlesari. Perla vísar þar til afsökunarbeiðni forsvarsmanna útgerðarfélags sem gerir út hollenskt skemmtiferðaskip þar sem þeir biðjast afsökunar á þykkum reykjarmekki frá skipinu sem lagðist yfir bæinn og Eyjafjörð á fimmtudag.
Segist Perla hafa menntað sig í ferðagreininni og unnið við ferðaþjónustu hérlendis í 11 ár, og því farin að öðlast smá reynslu í þessum efnum.
„Á öllum þessum árum man ég ekki eftir einum einstaklingi sem fór ósáttur frá landinu. Ekki einum!! Fólk gjörsamlega ELSKAR þetta land og vill koma aftur og aftur hingað. Eftirspurnin er gífurleg, jafnvel gígantísk, og við einfaldlega verðum að gera betur í að móta stefnu, stýra fjölda, setja reglur og VANDA OKKUR,“ segir Perla og spyr hvort við viljum „í alvöru eyða þessu dýrmæta landi okkar í dagsferðamenn sem borða og sofa í mörg þúsund manna erlendum skipum, sem taka svo yfir lítil krúttleg samfélög og ferðamannastaði, og menga svona gífurlega meðan á öllu þessu stendur?! Er það í alvörunni okkar dásamlega landi fyrir bestu?
Eða eru þetta kannski skammvinn gróðarsjónarmið sem ráða för? Kannski eitthvað sem minnir á Síldarævintýrið sem við innilega „fokkuðum upp“ þar sem græðgi og „þetta reddast“ tók öll völd, en svo bara reddaðist það ekki neitt!“
Segist Perla hreinlega ekki geta setið á sér lengur og óskar eftir að pressa verði sett á ráðamenn að gera betur fyrir framtíð landsins.
„Það er ekkert grín hvað við gætum innilega klúðrað þessu ef við vöndum ekki betur til. KOMA SVO!! Við þurfum öll að hjálpast að með framtíð þessa lands og okkar stærsta geira!“